138. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2010.

þjónustu- og öryggisstig löggæslu á Íslandi.

[14:37]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil setja fram þá lausn sem við teljum í dómsmálaráðuneytinu vera til að búa vel að lögreglunni í framtíðinni, sem fæli í sér bæði fjárhagsleg rök og fagleg rök. Þ.e. það sem ég nefndi áðan, stækkun lögregluumdæma. Jafnframt því að stækka lögregluumdæmin yrðum við að fara yfir það hvernig fjárveitingum er skipt. Það er nauðsynlegt að koma á reiknilíkani til að skipta fjárveitingum betur þannig að það fari eftir þörfinni á hverjum og einum stað og staðarháttum. Ég tek ekki undir það að sameining embætta hafi hingað til bitnað sérstaklega illa á landsbyggðinni en vitaskuld skulum við gæta að því að landsbyggðarsjónarmiðin verði í heiðri höfð.

Það sem ég mundi vilja segja varðandi rannsóknir kynferðisbrota, sem var komið inn á áðan og mér gafst ekki tími til að svara, er að mín sýn er ekki sú að færa allar rannsóknir á höfuðborgarsvæðið. Það getur vel verið að í einstökum málaflokkum séu þvílík rök til staðar að það eigi að vera sér rannsóknardeild fyrir allt landið eins og t.d. fyrir efnahagsbrot. Ég tel að það eigi ekki sama við um kynferðisbrot. Ég tel að lögreglan um land allt sinni þessum málaflokki afar vel þar sem staðarþekking og tækniþekking vega hvort upp á móti öðru.

Hvað varðar kjarasamningana er auðvitað afleitt að þeir skuli enn þá vera lausir. Þar er nauðsynlegt að ná farsælli lausn. Dómsmálaráðuneytið hefur verið í sambandi við lögreglumenn og fjármálaráðuneytið um þetta mál. Ég lýsi þeirri skoðun minni að við teldum það mjög farsælt ef það fengist í gegn að lögreglumenn fengju að fara fyrr á eftirlaun. Hins vegar kostar það peninga eins og annað, samkvæmt okkar útreikningum kostar það á þriðja hundrað milljón króna, en það er vissulega hugmynd (Forseti hringir.) sem við getum tekið undir.