138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

sala fasteigna, fyrirtækja og skipa.

448. mál
[15:01]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hans í þessu máli. Hér er um að ræða mál sem er kannski ekki stórt, og svo sannarlega ekki stórt í samræmi við það sem við eigum við núna og kannski það sem við ættum að vinna að hér núna, en það breytir því ekki að það er afskaplega mikilvægt að hafa skýrar reglur um fasteignaviðskipti og önnur sambærileg viðskipti. Þó að hægt væri að halda langa ræðu um að forgangurinn ætti að vera annar núna þegar stóri vandinn er sá að það fólk sem á fasteignir á við afskaplega mikinn skuldavanda að etja og þessu fólki var lofað úrlausn fyrir löngu síðan en ekki hefur orðið af því, þá ætla ég ekki að halda slíka ræðu hér.

Ég hef lítillega kynnt mér þetta frumvarp og það er þess eðlis að mikilvægt er að fá umsagnir aðila áður en við kveðum upp dóm um einstakar greinar. Þó vil ég lýsa yfir ánægju með að skylduaðildin að Félagi fasteignasala sé felld út. Ég held að það sé bæði réttmætt og skynsamlegt og fannst hæstv. ráðherra fara ágætlega yfir það mál.

Ef ég skil hæstv. ráðherra rétt og það sem kemur fram í frumvarpinu er 15. gr., eða innihald hennar, ný eða í það minnsta skýring á því. Þar segir, með leyfi forseta:

„Fasteignasali skal í hvívetna leysa af hendi störf sín svo sem góðar viðskiptavenjur bjóða. Hann skal liðsinna báðum aðilum, seljanda og kaupanda, og gæta réttmætra hagsmuna þeirra. Hann skal einnig gæta þess að aðila séu eigi settir ólögmætir, ósanngjarnir eða óeðlilegir kostir í samningum.“

Þetta hljómar vel, virðulegi forseti, og ég veit ekki hvort einhvers staðar annars staðar er tekið á málum hvað það varðar. Ég held að það sé hins vegar afskaplega mikilvægt fyrir þá aðila sem kaupa sér fasteignir að þeir geti verið nokkuð vissir um að sérhæfði aðilinn í þessu efni, sem er fasteignasalinn, sé búinn að ganga úr skugga um það eins og hægt er — og það er ætlast til þess — að engir leyndir gallar séu á viðkomandi fasteign. Nú er auðvitað ekki hægt að ganga þannig fram að það sé algjörlega hægt að koma í veg fyrir það en ég lít svo á að fólk sem kaupir sér fasteign geri það alla jafna einu sinni, tvisvar á ævinni, kannski oftar, en þetta sé í það minnsta eitthvað sem venjulegur íbúi hefur enga sérþekkingu á og verður þess vegna að treysta því að fasteignasalinn upplýsi hann um þá hluti sem mestu máli skipta. Ég hef heyrt að stundum hafi verið vankantar á því að það hafi verið gert og í það minnsta þarf að skýra eins og hægt er hvar ábyrgðin liggur og hvert sé þá hlutverk fasteignasalans í því efni. Ef við getum ekki farið þá leið — sem ég ætla ekki að fullyrða vegna þess að ég er ekki sérfróður hvað þetta varðar — að tryggja að það sé gert af fasteignasalanum þá þarf viðskiptavinurinn alla vega að vera mjög vel upplýstur um hvernig hægt er að ganga þannig fram og hvaða leiðir er hægt að fara til þess að kaupandi geti verið nokkuð viss um að hann kaupi það sem hann telur sig vera að kaupa.

Það er auðvitað gömul saga og ný að gallar leynist í fasteignum og miðað við nýlegar upplýsingar hefur hættan á því ekki minnkað í þeim mikla hraða sem hefur verið á undanförnum missirum við byggingu fasteigna. Ég var t.d. á vinnustað í heimsókn hjá tryggingafélagi fyrir nokkrum dögum þar sem þeir upplýstu mig um að eignatjón hefðu aukist í nýjum íbúðum og kæmi það til vegna þess að frágangur væri ekki jafngóður og hann ætti að vera. Nú er ég auðvitað ekki með neinar tölulegar upplýsingar, þetta er bara það sem starfsmennirnir upplýstu mig um, en hins vegar þekkja þeir þessi mál mjög vel og eru með puttann á púlsinum hvað þetta varðar.

Ég lít svo á að það sé í þeim anda sem kemur fram á bls. 14 í kafla um helstu breytingar sem felast í frumvarpinu. Um það er fjallað í þessari síðustu málsgrein en í lokin segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Tilgangur þessarar reglu er að taka af öll tvímæli um það að fasteignasali beri ekki aðeins skaðabótaábyrgð á grundvelli almennra reglna, heldur einnig á þeim sem starfa í hans þágu, jafnvel þótt um það sé ekki gerður sérstakur ráðningarsamningur.“

Hér er vísað til þess, miðað við ef maður les efni frumvarpsins og athugasemdir, að ef viðkomandi einstaklingur starfar hjá fasteignasala og er verktaki en ekki launamaður sé vafi á því hver beri skaðabótaábyrgð ef einhver mál koma upp. Ef ég skil þetta frumvarp rétt eru menn að taka af öll tvímæli hvað þetta varðar og það er gott og fagnaðarefni. Stóra einstaka málið er það, virðulegi forseti, að hér er mál sem nefndin þarf að fara vel yfir og það er afskaplega mikilvægt að þeir sem hagsmuna hafa að gæta geti komið með athugasemdir sínar þannig að við getum farið sem best yfir þetta. Þetta er auðvitað mikilvægt mál þó að ég hefði viljað sjá ráðherra í ríkisstjórn Íslands flytja önnur mál og brýnni nákvæmlega á þessum tímapunkti.