138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

virðisaukaskattur.

460. mál
[15:14]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir góðar undirtektir. Ég held að það sé alveg hárrétt að hér er einn af flöskuhálsunum, sem að vísu verður til af ánægjulegum ástæðum í þeim skilningi að aukin eftirspurn og aukinn fjöldi ferðamanna yfir háannatímann a.m.k. veldur því að ýmsir þættir eru alveg á tampi. Það má færa fyrir því ýmis rök að landið anni tæplega þeim fjölda ferðamanna sem stefnir í að verði hér um háannatímann í júlí- og ágústmánuði nk. Það eru fleiri flöskuhálsar sem er kannski ekki alveg eins einfalt að bregðast við og þessum, svo sem sú staðreynd að gisting á ákveðnum landsvæðum er þegar algerlega uppbókuð. Ferðaskrifstofur þurfa nú að endurskipuleggja ferðir og jafnvel setja kvóta á þann fjölda gistinótta sem menn verða að eyða t.d. hér í höfuðborginni í hverri ferð vegna þess að gistirými á nálægum landsvæðum er allt uppbókað fyrir fram.

Þessi staða er kannski svolítið framandi fyrir okkur en hugsanlega þó það sem verður við að glíma í vaxandi mæli á ýmsum sviðum, þ.e. að ferðamannafjöldinn sé hreinlega að verða svo mikill, a.m.k. á ákveðnum árstíma, að landið anni varla þeim fjölda. Þá er hægt að gera tvennt fyrst og fremst — nema menn vilji yfir höfuð ekki fá fleiri ferðamenn — annars vegar að dreifa þeim betur og nýta landið allt, reyna að virkja þau svæði sem hafa verið meira út undan í ferðaþjónustunni, en þó ekki síður og hið æskilegasta væri að sjálfsögðu að lengja ferðamannatímann og gera ferðaþjónustuna í sem allra ríkustum mæli að heilsársatvinnugrein. Það er eftir miklu að slægjast í þessu fyrir okkur. Þetta hefur verið mesta vaxtargrein íslensks atvinnulífs að meðaltali um áratugaskeið og ekkert bendir til þess að svo geti ekki orðið áfram. Þá þurfum við líka að bregðast við og grípa til ýmissa ráðstafana að ónefndu því að tryggja að þetta geti allt farið fram í góðri sátt (Forseti hringir.) við landið og náttúruna.