138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

virðisaukaskattur.

460. mál
[15:18]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur ýmislegt fleira verið til skoðunar í þessum efnum eins og hv. þingmanni er sjálfsagt kunnugt, þar á meðal t.d. möguleikinn á því að stofna sjóð eða koma upp tekjustofni innan greinarinnar til að greiða fyrir úrbótum á fjölsóttum ferðamannastöðum, til uppbyggingar í þjóðgörðum og á friðlýstum svæðum. Ég held að það sé alveg augljóst mál að við ráðum ekki við þær áætlanir sem núna eru um fjölgun ferðamanna. Ef það gengur eftir að fjöldi ferðamanna verði orðin 1 milljón á ári innan 7–10 ára sem spár teikna til, er alveg augljóst að ráðast þarf í viðamiklar aðgerðir til að gera það mögulegt, sérstaklega hvað varðar álagið á fjölsótta staði. Það þarf miklu meiri úrbætur varðandi hreinlætisaðstöðu, göngustígagerð og bílastæði og margt fleira, einfaldlega vegna þess að margir þessir staðir eru algjörlega sprungnir og ástandið orðið mjög bágborið á háannatímanum.

Mjög markviss áætlun þarf að vera í gangi um að dreifa álaginu, að virkja sem flest svæði og öll svæði á landinu. Hvað stjórnvöld geta með beinum hætti gengið langt í þeim efnum getur verið áhorfsmál og kannski að einhverju leyti pólitískt álitamál. Eru menn t.d. tilbúnir til þess að stjórnvöld beiti sér með beinum hætti til að þróa ferðaþjónustuna á þeim svæðum sem eru afskekkt? Eru menn tilbúnir til þess að stjórnvöld leggi eitthvað af mörkum til að tryggja beinar flugsamgöngur til fleiri landshluta þannig að ferðamenn komi inn á fleiri staði á landinu? Þá dreifist álagið sjálfkrafa svo ekki sé talað um að það er mikið tekjuspursmál fyrir þau byggðarlög sem í hlut eiga.

Nýleg könnun á Akureyri sýnir það að þeir ferðamenn sem koma beint inn til Akureyrar með beinu flugi gista að meðaltali kannski sjö nætur á svæðinu í staðinn fyrir tvær ef þeir koma inn á suðvesturhorninu. Þetta er margt af því sem er í skoðun, við höfum verið að skoða málefni hópferðabíla sem hafa borið kannski svolítið skarðan hlut frá borði í gegnum skattbreytingar að undanförnu, (Forseti hringir.) en það sem efst er á baugi núna og verið er að vinna að alveg sérstaklega er spurningin um tekjustofn til uppbyggingar á (Forseti hringir.) ferðamannastöðum.