138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

21. mál
[16:55]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Það er fáu við ágætar ræður hér í dag að bæta í þessu máli. Ég ítreka þó þakkir til allra sem komið hafa að málinu í þessum umgangi og ég þakka sérstaklega Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir brautryðjendastarf hennar ásamt öðrum sem lögðust á árarnar með henni. Nú sér fyrir endann á baráttu hennar og þeirra sem hafa fylgt henni að málum. Er svo mjög vel.

Ég þakka líka formanni allsherjarnefndar, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, fyrir þátt hennar í málinu, hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir að taka upp keflið ásamt öðrum flutningsmönnum þessa frumvarps. Það sér fyrir endann á þessu mannréttindamáli, þessu kvenfrelsismáli. Það þarf ekki að hafa frekari rök í málinu en hér hafa komið fram. Alþjóðlegar rannsóknir sýna að nektarstaðir eru gróðrarstía vændis, mansals, eiturlyfja og klámvæðingar. Reynsla íslenskra löggæsluyfirvalda sem mæla eindregið með þessu frumvarpi er hin sama. Við erum hér að afnema undanþágu sem við hefðum í raun átt að vera löngu búin að gera.

Það hefur fleira gerst á þessu þingi, og reyndar á fyrra þingi, sem var merkilegt í þessum efnum og hefur verið baráttumál lengi. Ég nefni þar fyrst frumvarpið sem samþykkt var á vorþingi í fyrra um vændiskaup og nú innan tíðar verða kveðnir upp fyrstu dómar í slíkum málum. Þá voru gerðar breytingar á ákvæðum um mansal. Nýlega gekk dómur í héraðsdómi, þungur dómur með fimm ára refsivist fyrir mansal. Óhug sló að þjóðinni þegar lýsingar úr þeim dómi komu fram, en vel að merkja, sá dómur og þær lýsingar sem þar komu fram eru ekki undantekning, svona ganga mansalsmálin fyrir sig. Við höfum séð kvikmyndir á þessu sviði og þar fram eftir götunum.

Það er enn verk að vinna í þessum málum, enn verk að vinna fyrir Alþingi. Það er verk að vinna gagnvart heimilisofbeldi og ég veit að það er vinna í gangi í dómsmálaráðuneytinu undir forustu hæstv. dómsmálaráðherra um heimilisofbeldi, um að lögleiða austurrísku leiðina um að ofbeldismennirnir séu fluttir af heimili en ekki að konurnar og börnin þurfi að flýja það. Líka liggur fyrir Alþingi frumvarp sem snýr að nauðgunarákvæði almennra hegningarlaga sem ég er flutningsmaður að. Það særir réttlætiskennd mína allverulega að vita til þess að vel innan við 5% af kærum í nauðgunarmálum skuli leiða til sakfellingar fyrir dómi. Finnskur sérfræðingur mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sagði um þetta ástand: Eru allar konurnar að ljúga eða tóku yfirvöld ekki mark á þeim? Og bætti svo við: Kærðu konurnar ekki vegna þess að þær mundu lenda í meiri vandræðum?

Að ímynda sér að innan við 5% af kærum leiði til sakfellingar í nauðgunarmálum fyrir dómi er aldeilis óþolandi. Í líkamsárásarmálum er sakfellt í vel yfir 95% af kærum sem berast. Breytt löggjöf er ekki töfralykill að réttlætisbreytingum í þá átt heldur er það einn veigamikill hluti. Þar kemur vilji Alþingis fram, ekki bara í lagatexta heldur líka í greinargerð.

Ég fagna þessu frumvarpi og ítreka þakkir mínar til þeirra sem að málinu hafa komið.