138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

21. mál
[17:02]
Horfa

Frsm. allshn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég vil við lok þessarar umræðu þakka öllum hv. þingmönnum sem til máls hafa tekið fyrir afar málefnalega umfjöllun og góða nálgun á þetta mikilvæga mál. Ég vil líka, líkt og aðrir sem hafa nefnt það í þessum ræðustól, þakka því sporgöngufólki sem hefur flutt þetta mál í gegnum tíðina. Vil ég þá nefna nafn Kolbrúnar Halldórsdóttur sem fyrst flutti það, og fleiri hv. þingmanna sem sitja núna á Alþingi sem hafa lagt sitt lóð á vogarskálarnar með því að vera meðflutningsmenn að þessum frumvörpum í gegnum tíðina.

Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni er þetta afar mikilvægt mál. Ég held að við getum öll verið sammála um að þetta er mál af þeim toga sem í raun og veru á ekki að vera neinn pólitískur ágreiningur um, þetta snýst ekki um það hvar í flokki fólk stendur. Þetta snýst um virðingu fyrir manneskjunni, þetta snýst um mannréttindi og það að senda þau skýru skilaboð að við viljum ekki á Íslandi að svona starfsemi þrífist hér. Þess vegna vona ég og heiti á alla þingmenn að við sameinumst um að ganga frá þessu máli, kýla það í gegn og gera það að lögum fyrir vorið.