138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:17]
Horfa

Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eðlilegast hefði náttúrlega verið að þessi reiknigrunnur lægi fyrir þegar menn tækju svona stórar ákvarðanir. Þó að mér sé fullkunnugt um að hv. þm. Atli Gíslason vilji reyna að leysa þetta mál verða menn líka að sýna það í verki. Ég gæti vel trúað því að þegar menn tala um skiptistuðulinn á milli djúpkarfa og gullkarfa gæti hann bara orðið jafnvel enn hærri en einn á móti tveimur, ég hugsa að það gæti bara verið mikil bjartsýni. Ekki hafa allir möguleika á að veiða hann og þeir hafa þá allir möguleika á að veiða gullkarfann. Ég hef miklar áhyggjur af því og ég geri ekki lítið úr þeim áhyggjum sem bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar hefur og eins hafnarstjórnin. Ég held að menn sjái þetta í réttu ljósi í þessu stóra fyrirtæki sem er einn af burðarásum samfélagsins í Grundarfirði. Hátt í helmingur af tekjum úr grunni fyrirtækisins þarna er akkúrat þessar karfaveiðar og -vinnsla. Ég vona svo sannarlega að reyndin verði, þegar á reynir, að þetta reglugerðarákvæði dugi til að rétta af svona mismunun vegna þess að það eru engin rök fyrir því að úthluta ekki miðað við aflareynslu þegar menn eru með þetta með þessum hætti. Það er mjög sérkennilegt að menn skuli taka ákvörðun um að úthluta aflaheimildum til útgerða sem sannarlega geta ekki veitt þær. Það veldur mér miklum áhyggjum. Eins og ég sagði áðan væri mun skynsamlegra og betra ef menn hefðu haft þessi svör núna þegar verið væri að klára málin og samþykkja þau en skilja þetta ekki eftir opið.

Ég vil líka fá að beina annarri spurningu til hv. þingmanns. Í dag eða í gær kom fram á vef sjávarútvegsráðuneytisins að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra muni einungis nýta sér u.þ.b. 600 tonn og taki þar mið af því sem fyrrverandi sjávarútvegsráðherrar hafa úthlutað í umframveiði. Nú er gert ráð fyrir að menn megi að hámarki sækja um 5 tonn. Hvernig sér hv. þingmaður þetta gerast ef 120–130 bátar sækja um? Hefur það eitthvað verið rætt, er þingmanninum eitthvað kunnugt um hvort það verður þá einhver happdrættispottur? Fá sjálfkrafa allir bara minna en þeir sækja um eða hvernig er það hugsað (Forseti hringir.) af hálfu ráðherrans? Hefur hann alræðisvöld í þessu eins og öllu öðru?