138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:20]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Við í nefndinni skoðuðum það að byggja á aflareynslu og aflaheimildum, og forsvarsmaður Guðmundar Runólfssonar kom á fund þar sem voru fulltrúar frá sjávarútvegsráðuneyti. Það kom fram á þeim fundi og ég held að nefndin hafi — þó að ég ætli ekki að leggja hv. þingmanni orð í munn — verið sammála um að á því væru vandkvæði vegna þess að það var verið að leigja á milli skipa og annað slíkt þannig að það sýndi ekki alveg rétta niðurstöðu, það yrðu skekkjur í því dæmi. Þess vegna var þessi leið farin, aflareynslan sýnir ekki alveg réttar tölur. Það má samt vel vera að þetta tiltekna fyrirtæki geti nákvæmlega sýnt fram á það og gerir það þá væntanlega í andmælameðferð sinni.

Ef það hefur mátt skilja af orðum mínum að ég gerði eitthvað lítið úr þeim vandamálum sem þarna hafa komið upp er svo alls ekki, heldur brást ég skjótt og hratt við sem formaður nefndarinnar og kallaði þennan einstaka aðila fyrir. Við áttum með honum langan og góðan fund, vil ég meina. Ég geri því ekki lítið úr þessum vandamálum og þessi reglugerðarheimild kom inn, við verðum bara að vona að vel takist til með það.

Hvernig á að verja þessum skötusel? Það er ekki búið að útfæra það í reglugerð, það eru of mörg ef í því dæmi, ég get ekki sagt mikið til um þá framtíð, hversu margir hafa áhuga á þessum veiðum og þar fram eftir götunum. Ráðuneytisstarfsmenn voru spurðir að þessu á sínum tíma, þeirra skýringar komu fram þar og ég vísa til þeirra.