138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:26]
Horfa

Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæt svör. Ég var fyrst og fremst að reyna að fiska eftir hvort hv. þingmaður, sem er löglærður maður og þekkir þessa hluti ákaflega vel, telji að reglugerðarheimildin sem verið er að veita með þessari breytingartillögu meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar dugi til þess að bregðast við aðstæðum eins og þeim sem við höfum lýst hér. Það eru afbrigðilegar aðstæður, snerta sennilega ekki mjög marga aðila en geta hins vegar skipt mjög miklu í einstökum tilvikum og fyrir einstök byggðarlög. Mér finnst þess vegna skipta mjög miklu máli að hv. þingmaður hefur lýst málinu þannig að með þessari heimild séu í raun og veru opnaðar rúmar heimildir fyrir ráðherrann til að bregðast við þessum sérstöku aðstæðum þó að ég sé í sjálfu sér ekki mjög fylgjandi því að gefa hæstv. ráðherra svona opnar heimildir almennt. Í þessu tilviki verður nauðsyn að brjóta lög.

Í annan stað velti ég aðeins meira fyrir mér þessum spurningum um frístundafiskiskipin. Þar eru mjög sérstakar aðstæður. Þetta er ný atvinnugrein, við höfum gert tilraunir til að búa til sem best lagaumhverfi í kringum þessar veiðar. Það var gert með lagabreytingu, í fyrra að ég hygg, og það var mjög mikilvægt skref í rétta átt. Síðan er hérna opnað með því að hafa sérstakan leigupott sem þessir bátar einir mega leigja sér úr en þá er vandamálið að þeir eru ekki að veiða mjög verðmætan fisk. Þeir fiska smáfisk, þeir eru að koma með kóð að landi sem gerir það að verkum að það er mjög erfitt fyrir þá að standa undir leiguverðinu. Það er erfitt fyrir alla í dag að standa undir leiguverðinu eins og það hefur þróast. Markaðurinn er frosinn, menn búast ekki við að það verði raunverulegt markaðsverð á leiguheimildum í sumar þegar allar heimildir eru eiginlega uppfiskaðar og þess vegna vaknar sú spurning hvort ekki hefði verið eðlilegra að miða ekki afdráttarlaust við þetta markaðsverð heldur við eitthvað annað. Við fjórir þingmenn höfum m.a. boðað breytingartillögu sem lýtur að því að opna möguleikana á því að verðleggja þessar heimildir öðruvísi.