138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þingið hefur ekki kallað allt ömmu sína þegar veittar eru reglugerðarheimildir í lögum. Það kemur vel á vondan, þann sem hér stendur, sem hefur iðulega gagnrýnt að við framseljum löggjafarvaldið til framkvæmdarvaldsins. Minnist ég reglugerðarheimilda um útflutning á óunnum fiski og einhvers fleira.

Það er mín einlæga von að þessi reglugerðarheimild haldi og dugi til. Ef hún er of opin og almenn yrði niðurstaðan væntanlega sú að hugsanlegur hagsmunaaðili mundi í framhaldinu reyna málsókn eða annað slíkt vegna beitingar slíkrar heimildar. Ég sé ekki það í spilunum í framtíðinni að slíkt komi upp á. Ég vænti þess að þessi heimild dugi ef það leggst á borðið að ósanngirni sé í þessari reglu, bersýnileg ósanngirni, að þá sé hægt að bregðast við, annaðhvort eins og ég segi með breytingum á reglugerðinni, gera þar undantekningu frá, eða sjálfri úthlutuninni.

Eðlilegra að miða við annað? Það var mat ráðuneytisins og annarra að þetta væri eðlilegasta viðmiðunin.

Verðminni fisk? Ég held ekki, ég held að allir sem stunda útgerð í landinu, hvort sem það eru einyrkjar, smáar útgerðir, millistærðir eða stórar, kappkosti hver fyrir sig að fá sem mest verðmæti fyrir aflann. Það er sami hvati, hversu stór sem útgerðin er, að fá sem mest í pottinn. Smábátasjómenn munu svo sannarlega fylgja þeirri reglu.