138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:00]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir ræðuna hér áðan. Það reyndar byggir á ákveðnum grundvallarmisskilningi hjá hv. þingmanni að halda að með skipan sáttanefndarinnar hafi ekkert átt að gera á meðan í sjávarútvegsmálum. Það var alls ekki svo, það var gerð ítarleg grein fyrir því á fyrsta fundi nefndarinnar hvert hlutverk hennar væri og að málum yrði áfram stýrt úr sjávarútvegsráðuneytinu af ráðherra þess málaflokks að öðru leyti. Það er því grundvallarmisskilningur sem margbúið er að reyna að leiðrétta en rétt að ítreka einu sinni enn.

Það er líka rétt að upplýsa að ítrekað var reynt að ná sáttum í þessu máli, aðallega við Landssamband íslenskra útvegsmanna sem hafa verið þau hagsmunasamtök sem hafa sett sig hvað mest á móti þessu frumvarpi, bæði með beinum hætti við hagsmunasamtökin sjálf og í gegnum Samtök atvinnulífsins. Það verður að segjast eins og er að þrátt fyrir að það hafi verið góður vilji allra hagsmunaaðila utan Landssambands íslenskra útvegsmanna, þ.e. forustu þeirra samtaka, að ná lendingu í málinu tókst það ekki og ekki var opnað á neinar umræður til þess eins og þó var reynt að gera. Þess vegna er þetta mál svo komið sem hér er, ekki var vilji til þess af þeirra hálfu að ná samkomulagi sem þó flestir ef ekki allir hagsmunaaðilar, bæði í sáttanefndinni og í sjávarútvegi, voru tilbúnir til að fallast á. (Gripið fram í: Þetta er rangt.)

Ég vil spyrja, virðulegi forseti, af því að nú er hv. þm. Ásbjörn Óttarsson útgerðarmaður, eins og við þekkjum vel, hvort frumvarpið eins og það er, nái það fram að ganga, hafi einhver áhrif á rekstur fyrirtækis hans, hvort hann hefur einhverra hagsmuna að gæta af þeim breytingum sem kunna að verða (Forseti hringir.) varðandi stjórn fiskveiða og felast í þessu frumvarpi (Forseti hringir.) og þá hvaða hagsmunir það gætu hugsanlega verið.