138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:09]
Horfa

Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hafði mikla trú á starfi þessarar sáttanefndar þangað til þetta fór upp í loft út af þessu eina ákvæði, ég batt miklar vonir um það. Þegar skynsamt fólk sest niður og ræðir málin efnislega og fer að reyna að leysa þau, og horfir á bæði kosti og galla út frá öllum hliðum, er yfirleitt hægt að leysa málin. Ég hef orðið var við það þegar ég hef rætt við marga stjórnarþingmenn að það þyrfti ekki langa yfirsetu til þess að menn næðu samkomulagi.

Hv. þingmaður spyr: Hvað þarf til þess að fá LÍÚ til þess að svara síma eða mæta á fund? Við megum ekki festast í því umhverfi að allur sjávarútvegurinn snúist bara um eitt félag. Það eru miklu fleiri félög eins og ég benti á í ræðu minni áðan. Það eru smábátasjómenn, það eru hagsmunasamtök sjómanna, það eru fiskvinnslustöðvar og þar fram eftir götunum. Setjum þetta í þann farveginn að þetta ákvæði hefði ekki verið í lögunum — og hv. þingmaður sagði: Það er fullt af öðrum röddum innan þeirra samtaka sem hann nefndi. Ef eitt aðildarfélag væri ekki sátt við niðurstöðu nefndarinnar þá teldi ég bara að sátt væri komin í sjávarútvegi. Ég vil ekki teikna það þannig upp að það sé einhver einn aðili sem segi til um það hvort það sé sátt eða ekki sátt innan kerfisins.

Mér finnst því grátlegt að við skulum nota þetta, eins og margoft hefur komið fram, bara örfá nokkur hundruð tonn. Það er mjög dapurlegt að þurfa að hafa það sem ásteytingarstein og geta þá ekki rætt efnislega um þá hluti sem skipta máli. Það hefðum við betur getað gert og nýtt kraftana í.

Ég segi það, virðulegi forseti, að ég bind miklar vonir við þessa nefnd. Ef hún hefði fengið að starfa áfram í friði, eins og henni var uppálagt, er ég alveg sannfærður um að hún hefði getað komist að skynsamlegri niðurstöðu.