138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:13]
Horfa

Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir síðustu orð hv. þm. Róberts Marshalls. Þegar menn setjast niður og ræða málin af skynsemi og yfirvegun er yfirleitt alltaf hægt að komast að samkomulagi. Það er líka rosalega dapurlegt að þurfa að hafa einhverja öfgahópa hvorn á sínum endanum til þess að eyðileggja kannski allt það mikla starf sem hægt var að vinna til þess að ná samkomulagi.

Hv. þingmaður nefndi líka strandveiðarnar, það eru þessi skref sem hafa verið stigin til þess af hálfu stjórnvalda. Bara til þess að draga þetta saman þá voru — þó að ein forustusveit hafi verið á móti strandveiðunum voru miklu fleiri sem voru sammála strandveiðunum, en því er öðruvísi farið með þetta eina ákvæði þar sem allir eru á móti. Ég vil rifja það upp fyrir hv. þingmanni að þegar ég fjallaði um strandveiðarnar, ég gerði það bæði núna síðast þegar nýja frumvarpið kom og eins í vor, þá sagði ég að ég hefði alla tíð verið hlynntur því að þessar strandveiðar eða handfæraveiðar væru og að ég hafi verið afskaplega ósáttur þegar þær voru lagðar niður. En við verðum að hugsa hlutina fram í tímann. (Forseti hringir.) Við vorum með 4.000 tonn í fyrra, nú erum við komin með 6.000 tonn og bráðum verða það bara 15.000 tonn eða 20.000 tonn. Við verðum að hugsa hlutina til enda.