138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:14]
Horfa

Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp sem við ræðum núna og er komið til 3. umr. hefur sannarlega verið mjög umdeilt. Það hefur komið greinilega fram að margir aðilar hafa haft mjög margt út á þetta frumvarp að setja, ekki bara skötuselsákvæðið sem hefur verið fyrirferðarmest í umræðunni heldur mjög mörg önnur ákvæði, svo sem karfaákvæðið sem við vorum að ræða um og geymsluréttinn. Einnig er umdeilt ákvæði sem lýtur að framsalsmöguleikunum eða veiðiréttinum. Þau mál voru á vissan hátt afgreidd við 2. umr. málsins þegar afstaða var tekin til þeirra efnisatriða en eftir hafa staðið ýmis önnur mál sem urðu þess valdandi að málið kom til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar milli 2. og 3. umr.

Það er dálítið athyglisvert að skoða það þegar við veltum þessu fyrir okkur að vanalega er það svo þegar mál koma fyrir þingið að við 1. umr. fer fram hin almenna pólitíska umræða þar sem menn skiptast á skoðunum almennt um málin, reyna að knýja á um svör frá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem er nú orðið fullreynt að fást stundum ekki. Síðan fara mál til nefndar og síðan til 2. umr. að lokinni meðferð í nefndinni. Það er einmitt þar sem venjulega eru gerðar hinar mestu efnisbreytingar við frumvarp. En skoðum nú aðeins reynsluna.

Þetta mál kom til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis síðasta haust. Þar fékk það svo sem heilmikla umræðu en niðurstaða þáverandi meiri hluta í nefndinni var sú að gera nánast engar breytingar þrátt fyrir að kallað væri eftir breytingum af hverjum hagsmuna- og umsagnaraðilanum á fætur öðrum. Það voru tvær minni háttar breytingar gerðar á frumvarpinu, það var afgreitt í algjöru ósætti út úr nefndinni 17. desember á síðasta ári þrátt fyrir að það lægi fyrir og allir vissu að málið kæmist ekki til umfjöllunar á Alþingi fyrr en liðið væri á janúarmánuð og þannig fór það gjörsamlega vanbúið af hálfu meiri hluta nefndarinnar til 2. umr.

Þá þurftu menn aftur að taka til við hið sama, að benda á alla þá miklu vankanta sem voru á málinu, ekki bara skötuselsákvæðið heldur fjöldamörg önnur ákvæði, enda fór það svo að málið fór aftur til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og var aftur tekið til efnislegrar meðhöndlunar. Og nú sjáum við niðurstöðuna. Hún er sú að meiri hluti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar gerir heilmiklar breytingar á málinu, ekki við 2. umr. heldur við 3. umr. Það er við þriðju atrennu málsins að loksins er hægt að þrýsta mönnum til þess að gera breytingar á málum sem blöstu algjörlega við.

Við 1. umr. var t.d. ítarlega bent á að ákvæðið varðandi karfann væri vanbúið. Það voru allir sammála um að úthluta þyrfti karfaheimildunum tvískiptum, djúpkarfa og gullkarfa, enginn ágreiningur var um það, ekki nokkurs staðar. En menn bentu hins vegar á að eins og málið var lagt upp upphaflega var það vanreifað, illa undirbúið að því leytinu að útfærsluna vantaði og þar knúðum við á um hvort ekki væri nú skynsamlegt að leggjast yfir málið. Á það var ekki hlustað. Síðan gerist það núna þegar málið kemur til nefndarinnar að nýju fyrir 3. umr. að menn sjá að frumvarpið var komið í algjörar ógöngur. Það var ekki hægt að framkvæma það eins og þar var gert ráð fyrir og þá var farið að reyna að gera breytingar á málinu.

Nákvæmlega sama er með skötuselsákvæðið, þetta umdeilda ákvæði. Lagt var af stað með það og þar voru engir fyrirvarar. Þá var sagt: Það er nauðsynlegt að gefa ráðherranum heimild til að deila út 2.000 tonnum til viðbótar af skötusel, bjóða þetta upp með þeim hætti sem kveðið var á um í frumvarpinu, að menn mættu kaupa sér aflaheimildir á tilteknu verði og veiða þær á tilteknu svæði. Við margbentum á að þessi svæðaskipting væri galin. Á það var ekki hlustað þegar málið fór fyrst til nefndarinnar, alls ekki. Nefndin taldi enga ástæðu til þess í desember að hlusta á það sjónarmið. Þó blasti algjörlega við að þetta var óréttlátt og óskynsamlegt og við vöktum athygli á því að það væru fádæmi, sennilega einsdæmi, að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fengi nánast dírektíf, tilskipun, tilmæli frá Alþingi um að auka aflaheimildir 80% umfram það sem Hafrannsóknastofnun legði til.

Þá var farið að telja málið niður, segja okkur að þetta væri bara heimild, þetta væri ekki þannig að hæstv. sjávarútvegsráðherra þyrfti endilega að nota sér þessar heimildir sínar, hann gæti farið sér ekki eins óðslega, gæti farið í einhverjar lægri tölur. Síðan byrjaði niðurtalningin, sem minnir mig á það að einu sinni var til efnahagspólitík sem var kölluð niðurtalningarleið og var uppi í kringum 1980. Hún fór ekki mjög vel, ekki frekar en niðurtalningarleið ríkisstjórnarinnar núna í þessu skötuselsmáli.

Af þessu tilefni var ort af einum snjallasta hagyrðingi okkar, Hermanni Jóhannessyni frá Kleifum, með leyfi forseta:

Mig hefur alla tíð undrað

hvert ólán fékk stjórninni sundrað.

Hún taldi þó niður

meðan til þess var friður

frá 55 ofaní 100.

Svona er þetta einhvern veginn núna, að komin er niðurtalningarleið í skötuselnum. Þetta byrjaði árið 2000, 1.500 tonn svifu hér yfir vötnum einhvern tíma, svo kannski 1.000 tonn, og nú gerist það að þann 16. þessa mánaðar kemur fréttatilkynning frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu sem er einhvers konar svar við blaðagrein sem birtist í Fiskifréttum eftir Kristján Þórarinsson stofnvistfræðing, sem var gagnrýni á þetta frumvarp. Ráðuneytið ákvað að svara og gera það með þeim hætti að í raun og veru er verið að gefa undir fótinn með það að nú verði ekki úthlutað 2.000 tonnum, ekki 1.500 tonnum, heldur verði haft til hliðsjónar einhvers konar meðaltal af þeim ákvörðunum fyrrverandi sjávarútvegsráðherra sem fólu í sér eins konar framúrkeyrslu frá tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar í skötuselnum og meðaltalsútreikningurinn er 600 tonn.

Nú telja menn sem eru að reyna að rýna í texta ráðuneytisins að hér sé verið að boða að ekki verði 2.000 tonnum úthlutað eftir nýju aðferðinni, fínu aðferðinni, heldur 600 tonnum. Og meðan ekki liggur annað fyrir hljótum við að taka undir þessa túlkun enda virðist hún blasa við þegar textinn er lesinn.

Ég gekk eftir því hvað eftir annað í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að við fengjum svör við því hvernig þessum tonnum yrði úthlutað því að ljóst er að eins og verðlagningin er má búast við því að umframeftirspurn verði eftir skötuselskvótanum. Ein hugmyndin sem okkur var greint frá að væri til skoðunar var sú sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson sagði, að draga þetta upp úr hatti þannig að fyrstur kemur, fyrstu fær eða sá heppni fær. Mér fannst einhvern veginn að þá hlytu menn að spara sér sporin og gera þetta bara samhliða lottóútdrættinum á laugardagskvöldum, það væri hluti af lottóvinningnum hver fengi hluta af þeim 600 tonna potti sem núna er verið að boða.

Þetta sýnir að jafnvel þessi stóri draumur, þessi stóra hugsjón um það hvernig ætti að úthluta viðbótaraflaheimildum með þessum hætti er ekki betur hugsuð eða betur útfærð en svo að það er mjög vel varðveitt leyndarmál sem greinilegt er að við fáum ekki uppljóstrað í þessari umræðu hvernig farið verður að því að deila út þessum tonnum. Það væri í sjálfu sér hægt að fara mjög rækilega yfir þessi mál — en nú er klukkan allt í einu farin að tifa mjög harkalega á mig og virðist gefa mér til kynna að ég hafi allt annan tíma.

Ég ætla að mæla fyrir nokkrum breytingartillögum. Í fyrsta lagi varðandi frístundafiskiskipin. Þar leggjum við til, við fjórir hv. þingmenn, að farin verði önnur leið en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Við höfum vakið athygli á því að frístundafiskiskipin eru ekki í stakk búin til þess að koma með að landi eins verðmætan afla og þau sem stunda aðrar veiðar. Þá er það bara þannig að þau geta ekki ráðið við það að kaupa aflaheimildir á markaðsverði, sérstaklega ekki núna þegar markaðsverðið er algjörlega óljóst, það veit enginn hvert markaðsverðið er. Það eru mikil þrengsli á kvótamarkaðnum og markaðsverðið er þess vegna mjög bjagað. Ég tel að þessi tilraun að bjóða mönnum sem eru í þessari atvinnugrein að leigja til sín heimildir úr 200 tonna potti á kannski eitthvað á þriðja hundrað krónur kílóið — eins og markaðsverðið nýjasta er mér sagt að sé í þorskheimildunum, leiguheimildum, þessum takmörkuðu heimildum — muni gera það að verkum að þeir munu ekki geta nýtt sér það. Þetta úrræði sem þarna er verið að boða upp á 200 tonn mun ekki skila árangri.

Þess vegna leggjum við til tvennt, annars vegar það að þetta markaðsverð verði ekki fullt heldur 75% af markaðsvirði, sem kemur þá til móts við þessar sérstöku aðstæður. Þetta eru sérstakar aðstæður sem um er að ræða, þarna er ekki um að ræða atvinnufiskimenn sem eru að reyna að hámarka verðmæti aflans heldur er hér um að ræða sportveiðimenn sem fyrst og fremst eru að gera sér þetta til skemmtunar, koma með aflann að landi eins og vera ber og menn vilja auðvitað gera sér mat úr honum en aðstæðurnar á markaðnum eru hins vegar núna þannig að sú aðferð sem verið er að leggja til mun ekki ganga upp.

Í öðru lagi opnum við á það, sem ég hygg að sé skilningur ráðuneytisins, að menn geti landað í svokallaðan VS-sjóð en þó bara 5% af heildaraflanum sínum og þá þarf hins vegar að ganga úr skugga um og tryggja það að andvirðið renni til útgerðarinnar því ekki ætlum við að láta þetta fara til skipta milli þýskra sjómanna og útgerðarmanna.

Við erum líka með ákvæði varðandi karfann sem kemur til móts við það sjónarmið sem við ræddum mikið áðan og ég ætla í sjálfu sér ekki að hafa mörg orð um það.

Ég ætla aðeins að nefna eitt að lokum og það er þetta: Það var ein breytingartillaga gerð, önnur þeirra breytingartillagna sem var gerð við 2. umr. málsins, og hún var að hverfa frá byggðaáherslum hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem hafði hugsað sér það að andvirði skötuselsheimildanna sem seldar yrðu með þeim hætti sem þar var kveðið á um rynni að 60% til byggðaáætlunar. Ég skildi vel að hæstv. ráðherra hefði áhuga á því að auka fjármagnið til byggðaáætlunar og út af fyrir sig fannst mér það ekki óskynsamleg hugsun úr því að menn voru að fara þessa leið. Þá brá hins vegar svo við að sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd ákvað að fara aðrar leiðir, hafnaði byggðaáherslum hæstv. ráðherra.

Þegar ég spurði hæstv. ráðherra eftir þessu á sínum tíma í þinginu sagði hæstv. ráðherra, með leyfi virðulegs forseta:

„Síðan geri ég ráð fyrir að sá ráðherra sem fer með byggðamál“ — iðnaðarráðherrann — „komi sjónarmiðum sínum varðandi þetta á framfæri við nefndina, a.m.k. var þessu breytt og í sjálfu sér ber nefndin ábyrgð á því.“

Það sem hæstv. ráðherra var í rauninni að segja okkur var þetta: Hæstv. iðnaðarráðherra komst með puttana í þessa peninga og ákvað þess vegna að færa áherslurnar frá byggðamálunum sem hæstv. iðnaðarráðherra, ráðherra byggðamála, hafði greinilega minni áhuga á að efla með fjármunum, og setja þessa peninga í annan sjóð, þ.e. Átak til atvinnusköpunar og hefur í sjálfu sér ekkert með byggðamál að gera. Þetta er ágætismál örugglega, ég ætla ekki að draga það í efa, en þetta er ekki byggðamál. Í þessu fólst auðvitað pólitísk áherslubreyting af hálfu stjórnarflokkanna. Mér er það algjörlega hulin ráðgáta hvaða nauður rak meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar til að gera þessar breytingar á aðventunni á síðasta ári. Það er algjörlega óskiljanlegt og þess vegna er það svo að við sem stöndum að þessum breytingartillögum, við hv. þingmenn Jón Gunnarsson, Ásbjörn Óttarsson og Sigurður Ingi Jóhannsson, leggjum það til — til þess að bjarga æru og andliti ríkisstjórnarinnar í byggðamálum — að þessum peningum verði ekki varið í Átak til atvinnusköpunar heldur til byggðaáætlunar. Við höfum aldrei fengið neinar skýringar á þeim sinnaskiptum sem urðu í stjórnarliðinu í þessum efnum nema þessar útskýringar hæstv. ráðherra að hæstv. iðnaðarráðherra hafi komist með klærnar í málið og „sjanghæað“ þessum peningum inn í þann sjóð sem var henni meira að skapi.

Hér er sem sagt gefinn upp boltinn fyrir hv. þingmenn stjórnarliðsins að standa nú með okkur sem einnig erum áhugamenn um byggðamál og taka þátt í því að snúa við þeim áherslum sem komu fram í breytingartillögum meiri hlutans á sínum tíma.

Virðulegi forseti. Út af fyrir sig er hægt að hafa mjög mörg orð um þetta frumvarp. Ég ætla ekki í sjálfu sér að gera það. Ég vek athygli á því sem ég sagði áðan að eftirtektarvert er hvernig þetta mál hefur verið að þróast. Það var lagt fram í miklu ósætti og það er afgreitt í ósætti. Það er athyglisvert að það ákvæði sem mest hefur steytt á, skötuselsákvæðið, andstaðan við það mál innan sjávarútvegsins hefur í raun og veru aukist. Stjórn Landssambands smábátaeigenda kom saman til langs fundar og ályktaði um þessi mál og lýsti yfir andstöðu sinni við þetta ákvæði og hvatti í rauninni til þess að farin yrði sú leið sem minni hluti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis lagði fram breytingartillögu um við 2. umr. málsins.

Illu heilli var sú breytingartillaga felld. Sú tillaga hefði að okkar mati skapað góða sátt um þetta mál. Það hefði mætt ákveðnum þörfum sem sannarlega voru til staðar, það hefði verið til samræmis við sjónarmið Landssambands smábátaeigenda, menn töldu að þetta ákvæði væri búið til til að mæta þörfum þeirra félagsmanna. Það er ljóst mál að svo er ekki. (Forseti hringir.) Ég vil þess vegna hvetja hv. þingmenn stjórnarliðsins til að íhuga (Forseti hringir.) þetta mál betur til að koma til móts við sjónarmið í sjávarútveginum, ekki þröngs hóps heldur almenn sjónarmið í sjávarútveginum.