138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:30]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp sem talsvert mikið ósætti er um eins og komið hefur fram í máli ýmissa hv. þingmanna. Mér þótti það athyglisvert fyrr í umræðunni að hv. þm. Helgi Hjörvar velti upp í andsvörum við hv. þm. Ásbjörn Óttarsson hvort það væri meining þeirra sem gagnrýndu frumvarpið að hæstv. sjávarútvegsráðherra væri bundinn af því að setja engin lög á meðan þessi sáttargjörð væri í gangi.

Mér þótti þetta allrar athygli vert þar sem ég hef á undanförnum árum, áður en ég kom á þing og jafnvel enn frekar eftir að ég var kosinn, velt fyrir mér hvort við breytum ekki stundum lögum í óþarfa með of stuttum fyrirvara, illa unnið og illa ígrundað. Það væri e.t.v. allt í lagi að láta eitt árið enn líða með núgildandi löggjöf í ákveðnum málum án þess að allt færi í bál og brand. Stundum sýnist mér mál fara á verri veg við það eitt að breyta þeim með þessum asa.

Lögin um stjórn fiskveiða eru orðin rúmlega 20 ára gömul og þeim hefur verið breytt 40–50 sinnum, ég held nær 50 sinnum. Þar af eru líklega ein fjögur eða fimm frumvörp frá núverandi ríkisstjórn í gangi og það á meðan ákveðið ferli um sáttaleið er jafnframt í gangi hjá sömu ríkisstjórn. Þetta er afar sérstakt.

Það frumvarp sem við fjöllum um er, eins og komið hefur fram í máli hv. þingmanna, bæði Ásbjörns Óttarssonar og Einars K. Guðfinnssonar, afar illa unnið. Það hefur tekið breytingum á endasprettinum. Ef við gæfum okkur einn mánuð eða jafnvel tvo til viðbótar til að fara yfir málið efa ég ekki að það mundi breytast talsvert mikið meir. Andstaða ýmissa hagsmunaaðila í sjávarútveginum er mikil við einstaka liði frumvarpsins og ef við litum nú aðeins upp úr þessari pólitík og veltum fyrir okkur hvaða ákvæðum hefði þurft að breyta eru þau kannski fyrst og fremst tvö. Um það ríkir nokkur sátt, bæði í samfélaginu og eins meðal hagsmunaaðila og jafnvel í þinginu, þó að tæknileg útfærsla hafi reynst erfið í báðum tilvikum. Það er annars vegar í sambandi við frístundaveiðarnar, þar er viðurkennt að þar sem um ferðaþjónustu er að ræða er það galli að þessir aðilar þurfi að kaupa eða leigja kvóta sem þeir jafnvel geta ekki fengið þar sem aðgengi að honum hefur minnkað á síðustu árum. Það var augljóst að þetta atriði þyrfti að fá einhvers konar löggjöf til að tryggja þessa vaxandi atvinnugrein sem snýr fyrst og fremst að því að selja ferðamönnum aðgang að því að veiða fisk en ekki fyrst og fremst að því að veiða fiskinn. Þetta hefur reynst erfitt. Erfiðleikarnir við þessa tæknilegu útfærslu eru kannski ekki nægilega vel ígrundaðir í núverandi frumvarpi og því leggjum við í minni hlutanum fram breytingar á því.

Hitt atriðið sem allir eru sammála um og er nauðsyn að vinna að er skipting á karfanum, þ.e. milli djúpkarfa og gullkarfa. Annars vegar vinnum við að því að vera með sjálfbærar veiðar, lýsa því yfir og votta að kerfi okkar sé eitt það besta í heimi, og ekki bara við segjum það heldur allflestir aðilar sem fylgjast með okkur, og þá hefur verið bent á það að við höfum verið sökuð um eins konar sjóræningjaveiðar á djúpkarfanum sem hefur síðan haft neikvæð áhrif á mörkuðum, sérstaklega í Þýskalandi. Það er augljóst að þessu atriði hefði þurft að breyta.

Þetta hefur reynst nokkuð erfitt og meiri hlutinn hefur farið með þetta í, ég vil ekki segja hringi en hefur tafsað dálítið á því að reyna að leysa þetta mál. Ég held að lausnin sé kannski ekki fundin enn, en við í minni hlutanum leggjum jafnframt til breytingu þar að lútandi til að tryggja að útfærslan verði ekki mjög til vansa. Þessi tvö atriði eru kannski fyrst og fremst þau sem hefði átt að breyta og þurfti að breyta. Öllum öðrum atriðum hefði mátt ýta til hliðar og bíða eftir niðurstöðum sáttargjörðarnefndar ráðherrans sem vinnur í að reyna að ná sáttum um þessa mikilvægu atvinnugrein. Ríkisstjórnin er hins vegar ríkisstjórn átaka eins, og ég held að ég hafi komið að í fyrri ræðu minni við 2. umr. Hún leikur sér að því í mörgum málum að fara átakaleið. Hún skiptir þjóðinni upp í tvær fylkingar, tekur sér síðan stöðu með öðrum hluta hennar og býr til átök. Á sama tíma kallar þessi ríkisstjórn sig norræna velferðarstjórn eða norræna fyrirmyndarstjórn en eins og ég hef fyrr komið inn á í ræðum úr þessu púlti er það einmitt ekki dæmi um hina norrænu leið að skapa svona gríðarleg átök um mál, heldur er það einmitt leiðin að reyna að leita sátta við 70–80% þjóðkjörinna fulltrúa og eins þar af leiðandi þjóðina í öllum stórum málum áður en menn taka ákvarðanir og keyra þau í gegnum þing með lagabreytingum og slíku.

Samtök atvinnulífsins hafa haldið því fram að ef þetta frumvarp yrði að lögum væri stöðugleikasáttmálinn upp í loft og vísa þá til skötuselsákvæðisins fyrst og fremst. Á síðasta fundi hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar spurði ég hvort meiri hlutinn hefði gert sér grein fyrir því að með því að knýja þetta í gegn gæti stöðugleikasáttmálinn verið í húfi. Ég gat ekki betur skilið en að menn teldu ekki við hæfi að stunda slíkar hótanir og það væri allt í lagi að keyra þetta áfram. Ég hefði talið eðlilegra, og vil nefna það hér, að meiri hlutinn hefði hlustað meira á þetta. Hann er að vísu sannarlega að því og hæstv. ráðherra ekki síst þar sem menn eru á hlaupum frá því að vera með heimild inni um allt að 80% framúrkeyrslu eftir ráðleggingu Hafró yfir í það, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, að reyna að finna einhvers konar meðaltal af því sem veitt hefur verið á síðustu árum umfram það sem Hafró hefur ráðlagt. Í stað þess að taka upp meðaflaregluna eins og við í minni hlutanum lögðum til við 2. umr. mætti líka hugsa sér að gildistöku þessarar heimildar yrði frestað fram á næsta haust, til að mynda til 15. nóvember, og þá hefði væntanlega þessi sáttargjörðarnefnd lokið störfum. Þetta atriði væri þá ekki að þvælast fyrir stöðugleikasáttmálanum og meiri friður væri í samfélaginu um að reyna að leysa mál. En, nei, meiri hlutinn vill reyna að halda áfram þessum átakastjórnmálum og keyra mál í uppnám í gegnum þingið.

Tónn frumvarpsins er að öðru leyti ágætur, hin mörgu mál sem mörg hver geta verið jákvæð og eru það sannarlega, til að mynda þau sem snúa að því sem meiri hlutinn hefur kallað að draga úr braski, þ.e. verslun með aflaheimildir, auka veiðiskyldu og minnka framsal eða takmarka heimildir til að flytja aflamark á milli báta eða milli ára. Þetta er mótsagnakennt því að á sama tíma er talað um að auka þurfi leigukvótann sem gerist auðvitað ekki samhliða þessu. Það er svolítið sérstakt að þegar kemur að skiptingu karfans þvingar akkúrat sú leið sem meiri hlutinn velur fram þetta svokallaða brask þar sem skip sem ekki geta veitt djúpkarfa fá hann í sinn hlut og verða þá að fara út á markaðinn og skipta. Það er margt mótsagnakennt í þessu blessaða frumvarpi og hefði þurft betri yfirvegun, meiri tíma og meira samráð og samvinnu við bæði hagsmunaaðila innan sjávarútvegsins og líka innan þingsins til að menn kannski áttuðu sig á hinni pólitísku stöðu.

Ég vil ljúka máli mínu á tvennu, annars vegar því að benda hv. meiri hluta á að það er enn tími til að hætta við. Það er hægt að draga þetta frumvarp til baka. Það væri skynsamlegt að hætta við að fórna þessum meiri háttar hagsmunum, þ.e. stöðugleikasáttmálanum og sáttargjörðinni, fyrir minni hagsmunina sem sannarlega eru til staðar. Þetta eru hugsanlega um 600 tonn af skötusel. Það væri skynsamlegt að draga þetta hreinlega til baka en að öðru leyti, eins og fram hefur komið í ræðum hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar og hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, stend ég að minnihlutaálitinu og þeim breytingartillögum sem því fylgja. Ég vona satt best að segja að meiri hlutinn styðji okkur í því því að þær eru til bóta og sáttaleið.