138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:53]
Horfa

Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að rifja það upp fyrir hv. þm. Helga Hjörvar þegar hann talar um lýðræðislegar kosningar og lýðræðislegar niðurstöður og heldur því fram beint og óbeint að stjórnarflokkarnir sitji við kjötkatlana vegna þess að þeir hafi boðað þessar breytingar í skötuselsákvæðinu að það er mikil einföldun á hlutunum. Núverandi ríkisstjórn var kosin vegna þess að hún ætlaði að slá skjaldborg um heimilin en hún hefur gleymt því. Auðvitað hentar henni mjög vel að draga athyglina að einhverju öðru sem skiptir ekki máli. Þetta er mjög sérkennileg nálgun á hlutina. Svo geta menn tekið, eins og hv. þingmaður gerði, þessa auðlindagjaldsumræðu og klárlega er sjávarútvegurinn að greiða núna um 1.300 millj. í auðlindagjald og þá getum við líka spurt: Hvers vegna eiga sjávarbyggðirnar að greiða auðlindagjald til Reykjavíkur en ekki Reykvíkingar auðlindagjald af heita vatninu til sjávarbyggðanna? Menn þurfa þá að taka auðlindaumræðuna í heildina, menn geta ekki komið upp og gert það með þessum hætti. Og að halda því fram að þetta sé í raun og veru grunnurinn að því að þessir stjórnarflokkar sitji í ríkisstjórn er náttúrlega bara alrangt. Þetta er mjög mikil einföldun á hlutunum. Ég tek hins vegar undir það sem hv. þingmaður segir að auðvitað verðum við líka öll að líta inn á við og það veldur mér miklum áhyggjum að við erum allt of mikið í átökum. Það er mjög alvarlegt við þessar aðstæður og þess vegna mjög óskynsamlegt hjá ríkisstjórninni að setja þetta allt upp í loft í upphafi. Ég ber greinilega miklu meiri væntingar en stjórnarþingmennirnir til niðurstöðu sáttanefndarmanna. Ég tel að allir sem þar eru hafi farið þar inn til að leita sátta og, eins og hv. þingmaður benti á, að allir mundu þá líta í eigin barm og spyrja: Hvað getum við lagt af mörkum til að ná sátt? (Forseti hringir.) En, virðulegi forseti, ég ber greinilega meiri væntingar til niðurstöðu nefndarinnar en hv. stjórnarþingmenn.