138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[19:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvari fyrir ágætisræðu. Hann gerði þar að umtalsefni lýðræði, samstöðu og sitthvað fleira sem mér er hugstætt mál. Það rifjaðist upp fyrir mér undir ræðu hans atburður sem gerðist í aðdraganda prófkjörs sjálfstæðismanna í Reykjavík árið 2007 þegar auðmaður kaus að birta heilsíðuauglýsingu í Morgunblaðinu þar sem hann hvatti sjálfstæðismenn til að styðja ekki ákveðinn sitjandi ráðherra, hæstv. fyrrverandi ráðherra, Björn Bjarnason. Þetta rifjaðist upp fyrir mér og þetta var gagnrýnt á þeim tíma réttilega. Þetta gerði þessi auðmaður í krafti auðsins.

Nú hefur LÍÚ farið fram með fjölda heilsíðuauglýsinga, hannaðar af auglýsingastofu, í þessu stóra máli eða þessu litla skötuselsmáli og ég fullyrði það að langflestir þingmenn hafi hreinlega ekki efni á að taka þátt í umræðunni á þeim vettvangi nema þá ef til vill í smáauglýsingum í dagblöðum. Þetta gerir LÍÚ í krafti auðs, í krafti kvótaeigna vil ég meina. Ég hef af þessu sjálfur þungar lýðræðislegar áhyggjur, af þessum málatilbúnaði, af þessum aðferðum og af þessari þróun. Og að gefnu tilefni spyr ég hv. þm. Helga Hjörvar um afstöðu hans sem reynds þingmanns.