138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[19:04]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek sannarlega undir áhyggjur hv. þingmanns því að það vitum við að þar sem peningar fara að leika stórt hlutverk í stjórnmálaumræðu, þar er auðvitað voðinn vís og lýðræðinu hætt. En mér finnst þessi framganga LÍÚ enn styrkja það sem ég hélt fram í ræðu minni að hugmynd þeirra sé ekki og hafi ekki verið að eiga neina samræðu um breytingar í sjávarútvegi heldur að heyja áróðursstríð. Og það að gera þetta mikla mál úr 600 tonnum sé staðfesting á því að það hafi alltaf verið ætlun þessa hagsmunagæsluklúbbs að heyja áróðursstríð en eiga enga samræðu og að auglýsingaherferðin sem nú hefur verið efnt til bendi líka til hins sama, að það eigi í krafti auðs að heyja áróðursstríð en hafna málefnalegri samræðu. Ég get ekki dregið aðra ályktun en þá að LÍÚ hafi gefist upp við það þegar þeim var ljóst að það er ríkur þjóðarvilji og eindreginn pólitískur vilji fyrir því að gera breytingar og reyna að skapa sátt í þessu að þeir bara treysti sér ekki í þá umræðu. Þeir beinlínis treysti sér ekki í málefnalega umræðu um það sem hér er undir vitandi af þeim ríka vilja sem með þjóðinni er til að gera breytingar í þessu kerfi og reyna að vinda ofan af þeim mistökum sem gerð hafa verið og því óréttlæti sem skapað var með einkavæðingu á fiskinum í sjónum.