138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[19:07]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Um þetta get ég nú sagt það að stundum hefur það sína kosti að sjá ekki mikið og af lýsingum á þessum auglýsingum sem hv. þingmaður dró upp þakkar maður kannski fyrir það.

Ég held þó að þær hljóti fyrst og fremst að lýsa einhvers konar örvæntingu vegna þess að öfgafullur áróður og hatrammt áróðursstríð eins og LÍÚ hefur kosið að reka í þessu efni vitnar yfirleitt um veika málefnalega stöðu og mikinn ótta við að breytingar nái fram. Ég held að full ástæða sé til þess vegna þess að ég ítreka það að þau markmið sem ríkisstjórnin hefur lýst yfir í stjórnarsáttmála sínum eru einfaldlega í fullu samræmi við eindreginn vilja stórs meiri hluta íslensku þjóðarinnar og það er brýnt að vinna úr þeim vilja og reyna að gera þær leiðréttingar í þessum geira sem geti skapað um hann einhverja sátt. Þegar við lögðum af stað í þá vegferð hélt ég að það væru líka hagsmunir útgerðarmanna að koma með í þá vegferð vegna þess að það væru líka hagsmunir þeirra að hér mætti takast að skapa einhverja bærilega sátt um greinina og það væru langtímahagsmunir sem væru þess virði að jafnvel færa nokkrar fórnir fyrir hvað eignarhaldið varðar.