138. löggjafarþing — 95. fundur,  22. mars 2010.

Afbrigði um dagskrármál.

[13:17]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hv. þingmenn. Við erum að fara að greiða atkvæði um afbrigði til að taka á dagskrá mál sem snýr að því að svipta starfsstétt grundvallarréttindum sem heita verkfallsréttur. Sögulega séð hefur slíkt aldrei verið gert nema brýnir öryggishagsmunir þjóðarinnar hafi verið í húfi. Ég átti sjálfur þátt í mörgum verkföllum sem farmaður um árið og veit til þess að engri ríkisstjórn hefur nokkurn tímann dottið í hug að svipta starfsstétt verkfallsrétti vegna peningalegra hagsmuna eins fyrirtækis sama dag og verkfallið skellur á.

Það er varasöm leið sem Alþingi Íslendinga er að feta í þessu máli. Það liggur ekki á að taka það inn í þingið og ég bið þingmenn að velta því alvarlega fyrir sér hvað þeir eru að fara að gera með þetta mál í dag.