138. löggjafarþing — 95. fundur,  22. mars 2010.

kjaramál flugvirkja.

483. mál
[13:31]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs til að lýsa yfir efasemdum um að þetta sé rétta leiðin til að glíma við kjaramál flugvirkja og til að glíma við kjaramál almennt í samfélaginu eins og ástandið er. Ég túlka hér efasemdir sem hafa komið fram í þingflokki Framsóknarflokksins. Orsakir efasemdanna eru margs konar. Þetta ber brátt að og gerist í þjóðfélagslegu ásigkomulagi þar sem afskaplega lítið hefur verið gert til þess að létta byrðum af almenningi að okkar mati. Lítið hefur farið fyrir almennum aðgerðum á lánamarkaði, það hefur farið lítið fyrir rausnarlegri lækkun á vöxtum sem mundi hjálpa almenningi afskaplega mikið. Við höfum ekki heyrt hið almenna plan ríkisstjórnarinnar í kjaramálum á launamarkaði.

Það mætti ímynda sér margar aðrar leiðir til að taka á vanda sem þessum, t.d. gerðardóm eða eitthvað slíkt. Verkfallsrétturinn er að mörgu leyti heilagur réttur launþega og það er ekkert sjálfsagt mál að fara í það að setja bann á verkfall og sérstaklega ekki þegar um er að ræða einkafyrirtæki. Flugvirkjar hafa samið við önnur fyrirtæki á þessum markaði þannig að þetta er engan veginn augljóst.

Ég kem hér upp fyrst og fremst til að túlka efasemdir og geri það í aðdraganda fundar samgöngunefndar þar sem ég mun láta þessar efasemdir líka í ljós og vonandi fá einhver svör við þeim. Stórar spurningar blasa við, það er talað um að þetta sé á grundvelli stöðugleikasáttmálans en hann er í raun og veru frekar máttlaus þegar maður spáir í það. Stundum hefur hann verið borinn saman við þjóðarsáttina á sínum tíma en sá samanburður er af og frá.

Um hvað snerist þjóðarsáttin? Hún snerist um að fyrirbyggja t.d. að við lentum í svona aðstöðu. Það var samkomulag milli ríkisins, launþegahreyfingarinnar og atvinnurekenda um launastig, um vaxtastig, um stig á verðlagi en það er ekki í stöðugleikasáttmálanum. Við erum ekki með slíkt plan og þess vegna blasir engan veginn við að við eigum að ráðast í svo harkalegar aðgerðir.

Svo vil ég líka vekja máls á því að þó að staða mjög margra fyrirtækja sé slæm á Íslandi eru líka fyrirtæki í útflutningsatvinnuvegum, fyrirtæki sem draga að gjaldeyri til Íslands, sem er farið að ganga nokkuð vel. Samkeppnishæfni Íslendinga hefur vaxið mjög mikið í útflutningsgreinunum. Flugvirkjar þiggja að stórum hluta til, ef ekki að öllu leyti, laun sín í erlendum gjaldeyri og við þurfum að fara að taka afstöðu til þess í þessum sal upp að hvaða marki við eigum að láta betri stöðu útflutningsatvinnuveganna skila sér til launþeganna. Þegar launþegarnir gera kröfu um að fá hlutdeild í vaxandi hagnaði útflutningsatvinnuveganna, ætlum við þá að setja lög á þær kröfur í öllum tilvikum? Þetta hefur ekki verið rætt hér og þetta er stór hluti þeirra efasemda sem ég læt í ljós núna. Þetta mál ber brátt að og mér finnst engan veginn hægt að ætlast til þess að maður styðji það alveg hrátt, en við munum vonandi ræða þetta ítarlega í samgöngunefnd á eftir.