138. löggjafarþing — 95. fundur,  22. mars 2010.

kjaramál flugvirkja.

483. mál
[13:36]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað væri æskilegt að sátt ríkti á launamarkaði á Íslandi. Það gerir það hins vegar ekki og það er auðvitað áfellisdómur. Þjóðarsáttin átti sér á sínum tíma, 1990, langan aðdraganda og það hefði verið æskilegt að við hefðum farið í eitthvert slíkt ferli á þessum alvarlegu tímum og stæðum uppi með slíka sátt núna. Svo er ekki. Það er mikilvægt að nota tækifærið sem best núna, þegar á að fara að setja lög á kjaradeilur, til þess að minna á það að ríkisstjórnin hefur ekki farið í það af fullum krafti að skapa sátt á launamarkaði. Auðvitað auglýsi ég eftir því að það verði gert svo við þurfum ekki að fara í slíkar aðgerðir.

Ég árétta líka, vegna þess að það er talað um samfélagslega ábyrgð og þá væntanlega líka samfélagslega stefnu og þess háttar, að mjög mikið ójafnvægi ríkir á launamarkaði. Sum fyrirtæki munu gera það mun betra en önnur fyrirtæki á næstu missirum vegna þess að samkeppnisstaða Íslendinga hefur breyst. Þetta eru fyrirtæki sem eru aðallega í útflutningsatvinnuvegum og svoleiðis, við erum jafnvel farin að sjá betri rekstrarafkomutölur hjá þessum fyrirtækjum en við bjuggumst við. Hvað ætlum við að gera í því? Ætlum við að láta launþega, starfsmenn þessara fyrirtækja, njóta góðs af því eða ekki? Það er alveg þráður í mér sem telur skynsamlegt að starfsmennirnir njóti góðs af því. Þess vegna finnst mér ekki augljóst að við eigum að setja lög á þetta verkfall.