138. löggjafarþing — 95. fundur,  22. mars 2010.

kjaramál flugvirkja.

483. mál
[13:38]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Vegna þess sem fram kom í máli hv. þingmanns vil ég árétta að það kom fram mikil ánægja meðal aðila vinnumarkaðarins með aðgerðir ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum. Það er heldur ekki rétt sem fram kom í máli hans að vextir hefðu ekki lækkað, þeir eru farnir úr 18% niður í 9% þannig að þar hefur orðið töluverð breyting.

Ég árétta að það er ekki sjálfgefið að þessi skref séu stigin. Hins vegar eru aðstæðurnar í þjóðfélaginu þannig núna að þetta er ekki og getur ekki verið einkamál þeirra stéttarfélaga sem þarna um ræðir. Ég segi þetta sem fyrrverandi formaður stéttarfélags sem hefur tekið þátt í kjarasamningum. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því hversu heilagur þessi réttur er og hversu mikilvægur hann er. Það er líka til undirstrikunar á alvarleika þessarar stöðu í dag að við stígum þessi skref. Við á þingi verðum að ná að senda sameiginlega í dag skilaboð til vinnumarkaðarins, það er okkar mat: Fjöldi fólks í ríkiskerfinu hefur tekið á sig miklar kjaraskerðingar, m.a. allir þeir sem sitja hér inni — og ég sé ekki eftir þeim — og ríkisstjórnin líka. Skilaboðin frá þinginu verða einfaldlega að vera þessi: Nú er ekki tími til að fara fram með kröfur upp á 15% launahækkanir, það er ekki tímabært. Þó að þessar greinar standi betur og það sé full ástæða til að fagna því er ekki tímabært að fara að skipta þeim hagnaði.