138. löggjafarþing — 95. fundur,  22. mars 2010.

kjaramál flugvirkja.

483. mál
[13:42]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Margar stéttir hafa á undanförnum mánuðum og missirum staðið frammi fyrir mikilli kjararýrnun og beinlínis launalækkunum. Auðvitað er það aldrei heppileg leið og það er aldrei ákjósanleg leið, ekki fyrir nokkurn hér inni, að fara í það að stöðva verkfall. Við þurfum þó að líta á það hverju sinni hvernig ástandið er í samfélaginu og vera raunsæ á hvernig hægt er að taka á efnahagslegum áföllum sem við stöndum frammi fyrir. Það þurfum við að gera í dag.

Ég vil þó leyfa mér að mótmæla ákveðnum atriðum sem hæstv. samgönguráðherra setti fram í röksemdafærslu sinni. Ef stöðvun verkfalls flugvirkja í dag stuðlar að því að stöðugleikasáttmálinn haldi vil ég sérstaklega benda á að samgönguráðherra og öll ríkisstjórnin skoði annað mál sem er á dagskrá þingsins í dag, skötuselinn.

Það er alveg ljóst að það mál mun rjúfa og slíta í sundur friðinn sem tengst hefur stöðugleikasáttmála. Þess vegna bendi ég sérstaklega hv. þm. Róberti Marshall á það að friðarskyldan verði þá tekin upp innan sjávarútvegsnefndar hvað það mál varðar því að friðurinn þar er rofinn og mun stuðla að því ef að líkum lætur að stöðugleikasáttmálinn muni ekki halda eftir að það frumvarp hefur verið samþykkt.

Við stöndum hins vegar frammi fyrir því að taka ákvörðun um að stöðva verkfall flugvirkja hér í dag. Við í Sjálfstæðisflokknum munum ekki standa í vegi fyrir því að lögin verði að veruleika í dag. Verðmætasköpunin verður að halda hér áfram, ekki síst í grunnatvinnuvegum þjóðarinnar, sjávarútvegsmálum en ekki síður ferðaþjónustunni, hún verður að halda áfram. Það verður að skapa tekjur í samfélaginu. Þó að ríkisstjórnin sé ekki að stuðla að því alla jafna munum við í Sjálfstæðisflokknum ekki standa í vegi fyrir þessu máli hér í dag.