138. löggjafarþing — 96. fundur,  22. mars 2010.

kjaramál flugvirkja.

483. mál
[16:28]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram hjá hv. þm. Birni Vali Gíslasyni, framsögumanni meirihlutaálitsins, stend ég að því áliti og mun greiða atkvæði með því að samþykkja þessi lög hér á eftir. Ég geri það að sjálfsögðu með blendinni hugsun, ég viðurkenni það fúslega, en ég verð að segja það, virðulegi forseti, að ég geri það líka í ljósi þess ástands sem er hér í þjóðfélaginu. Nú er ástandið þannig hér í þjóðfélaginu að við þurfum ekki að eyða mörgum orðum í það, við ræðum það alla daga og okkur er fullkunnugt um það ástand sem hér er. Þessum mönnum, flugvirkjum, stendur til boða 11% launahækkun, það er dálítið umfram það sem mörgum öðrum stendur til boða á hinum almenna vinnumarkaði og eins líka er það líka langt umfram það sem þessi rekstraraðili, eða Icelandair, hefur samið um við aðrar stéttir, þannig að við verðum líka að setja hlutina aðeins í samhengi. Þar með er ég ekkert að halda því fram að þessir aðilar séu eitthvað ofsælir af sínum launum eða þar fram eftir götunum og ekki skilja mig þannig, en við verðum hins vegar að setja hlutina í samhengi við það ástand sem við erum að ræða þá í.

Ég vil líka, virðulegi forseti, út af því sem hv. þm. Guðmundur Steingrímsson flutti hér breytingartillögu, hún er allra góðra gjalda verð og mikilvægt að menn hugsi í lausnum og þar fram eftir götunum, en ég held í raun og veru að eftir að við sátum með þessum aðilum áðan, kom það bersýnilega í ljós að ríkissáttasemjari, sem kemur fram í hans tillögu, sem mundi skipa oddamann í deilunni, lagði einmitt fram 4% meira en aðilarnir höfðu verið að ræða sín á milli og langt umfram það sem forustumenn Icelandair voru tilbúnir að samþykkja. En í ljósi alvarleika málsins voru þeir tilbúnir að samþykkja það. Ég lít svo á að í raun og veru hefur þessi miðlunartillaga farið fram á milli þessara tveggja aðila af hálfu ríkissáttasemjara þegar það er gert með þessum hætti, því að ú tillaga kemur frá ríkissáttasemjara. Þar að auki er það sem menn eru að tala um í sambandi við stöðugleikasáttmála, að menn eru að tala þar um 5,75% plús 1% sem færi í einhverja hagræðingu, til viðbótar þessu eru þessi 4,25% sem menn eru reyndar ekki sammála, ég vil að það komi skýrt fram. En af hálfu Icelandair vilja þeir meina að það sé nánast eingöngu sem fari fram í launahækkun en ekki til hagræðingar á móti inni í rekstri félagsins. Hins vegar héldu flugvirkjar því fram að það væri hluti af því þar líka inni, þannig að því sé komið á framfæri.

Það kemur líka fram, og við megum ekki gleyma okkur í því, að þegar krónan var sem sterkust í raun og veru, sátu útflutningsgreinarnar allar eftir, tekjurnar hjá þeim. Það kom fram á þessum fundi í samgöngunefnd að þessir aðilar hefðu ekki setið eftir í launahækkunum miðað við almenna vinnumarkaðinn. Við verðum líka að átta okkur á því að þegar gengi er fellt, það er reyndar vitlaust skráð í dag, en eitthvert millibilsástand sem væri þarna á milli sem væri hugsanlega eðlilegt gengi, að það er ekki hægt að senda það allt bara beint til baka, það gefur algjörlega augaleið, alveg sama hvort það er þarna eða einhvers staðar annars staðar. Ég þarf nú ekki annað en rifja það upp að sjómenn sem sátu mjög lengi eftir með sín kjör einmitt út af sterkri stöðu krónunnar og útflutningsatvinnuvegirnir borguðu alla þensluna og borga skattana af því þegar öll þenslan var hér á höfuðborgarsvæðinu með sterku gengi krónunnar. Á meðan blæddi útflutningsgreinunum, en síðan þegar loksins rofaði aðeins til hjá þeim, vilja menn hrifsa það allt til sín.

Ég vil þó að lokum segja þetta, virðulegi forseti, að mér er ekki ljúft að gera þetta, en ég tel það í ljósi þess ástands sem við erum í núna að það sé nauðsynlegt að gera það, enda er þetta einungis í sex mánuði. Það er ekki verið að grípa inn í samninginn sjálfan, heldur er verið að framlengja gildistíma samningsins og viðsemjendur sem geta þó varla gengið að því að fá 11% launahækkun. Ég tel það við þær aðstæður sem eru í þjóðfélaginu í dag vera töluvert til að slægjast eftir.

Ég vil hins vegar enda á því, virðulegi forseti, að taka undir með hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni og hvetja til þess að þegar — og ég vona svo innilega að við endurnýjum þennan stöðugleikasáttmála í haust — hann rennur út, að við einmitt tökum fleiri þætti inn í hann eins og hv. þingmaður benti hér á, að við tækjum inn í vaxtastigið og þar meira í svona í átt við þessa þjóðarsáttarsamninga sem gerðir voru og tökum fleiri þætti þar inn í. Það held ég væri vel til fallið upp á framhaldið að gera.