138. löggjafarþing — 96. fundur,  22. mars 2010.

kjaramál flugvirkja.

483. mál
[16:34]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum að taka hér stórar ákvarðanir. Þau sjónarmið sem vegast á í þessu máli eru sterk hvor í sína áttina. Annars vegar er hinn helgi verkfallsréttur sem er varinn í stjórnarskránni og mannréttindasáttmála Evrópu og svo hins vegar þessi dæmalaust erfiða staða sem við erum að glíma við. Við horfum t.d. upp á 50–60 milljarða kr. niðurskurð í ríkisútgjöldum og fram undan eru gríðarlega stór og mikil verkefni.

Mig langar til að spyrja hv. þm. Ásbjörn Óttarsson nokkurs, og kannski líka beina spurningu til hæstv. samgönguráðherra vegna þess að ég veit að hann var í salnum. Við framsóknarmenn erum í sjálfu sér sammála um að stöðva þurfi það verkfall sem nú er í gangi. Við leggjum hins vegar til mildari leið að því leyti að við viljum ekki taka verkfallsréttinn af flugvirkjum í langan tíma, heldur leggjum til að svokallaður gerðardómur verði settur á laggirnar sem verði skipaður einum fulltrúa frá hvorum deiluaðila og oddamanni sem ríkissáttasemjari tilnefnir.

Mig langar til að fá viðbrögð hv. þingmanns við tillögu okkar vegna þess að einhvern veginn ímynda ég mér að hefðu menn gefið sér hálftíma eða klukkutíma í viðbót hefði mátt finna þarna færa leið sem er mildari en nær samt sömu markmiðum. Ég beini þessari spurningu einnig til hæstv. samgönguráðherra ef hann vildi vera svo vænn að svara þessu.