138. löggjafarþing — 96. fundur,  22. mars 2010.

kjaramál flugvirkja.

483. mál
[16:44]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir yfirferð hans í þessu máli. Það er nokkuð undarlegt að þingmaðurinn kallar verkfallsréttinn ofbeldisrétt. Svo er sannarlega ekki því að verkfallsrétturinn er eitt það mesta vopn og sterkasta sem alþýða þessa lands hefur áunnið sér í gegnum árin í ofbeldisaðgerðum vinnuveitenda gegn alþýðunni. Það er einfaldlega svo. Ég get ómögulega tekið undir að tala um verkfallsréttinn sem varinn er í 75. gr. stjórnarskrárinnar sem ofbeldisrétt.

Þar sem þingmaðurinn tilheyrir þeim flokki sem berst fyrir frjálsræði á öllum sviðum langar mig til að spyrja hv. þm. Pétur Blöndal: Hvað finnst honum um að ríkisstjórnin grípi til þess ráðs að setja lög á verkfall hjá fyrirtæki sem er í einkarekstri og er þar að auki á samkeppnismarkaði? Hvernig er hægt að setja lög á fyrirtæki með þessum hætti sem er eins og ég segi í samkeppni á innanlandsmarkaði? Mig langar mikið til að fá svar frá þingmanninum við þessu.

Eins og kom fram í máli hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar kom fram í samgöngunefnd að samningsaðilar hefðu yfir höfuð ekki verið búnir að skoða gerðardómsleiðina sem er langtum mildari og minna íþyngjandi fyrir þá aðila sem þessi lög beinast að. Út af hverju var þá ekki gert hlé á þessum nefndarfundi og það skoðað? Nei, ríkisstjórnin fer hér fram með enn eina hrákasmíðina, lagasetningu, í miklum hvelli og miklum flýti og það liggur fyrir að á borðinu er langtum betri leið sem er ekki eins íþyngjandi fyrir þá aðila sem þessi lög beinast að.