138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

kjaramál flugvirkja.

483. mál
[17:01]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Hér er einfaldlega gripið til allt of harðneskjulegra aðgerða gagnvart einni stétt í landinu sem á í kjaradeilu í ljósi þess hvað aðgerðaleysið hefur verið mikið hvað það varðar að reyna að skapa sátt á íslenskum vinnumarkaði við mjög óvenjulegar og dæmalausar aðstæður. (Gripið fram í: Akkúrat.) Við framsóknarmenn auglýsum eftir því, ekki síst af þessu tilefni, að farið verði í það af miklu meiri röggsemi en sýnd hefur verið að skapa sátt um það að ná niður vöxtum, ná niður verðlagi, en ekki bara einhliða aðgerðir til að halda niðri launum. Um það verður aldrei sátt. Við lögðum til hér í umræðunni að farin yrði mildari leið til að grípa inn í kjaradeilu flugvirkja, skipa gerðardóm og taka þó ekki samningsréttinn burt, heldur einfaldlega fara í að skipa þennan dóm sem hefði leitt til þess að málið yrði (Forseti hringir.) a.m.k. leyst. Sú tillaga var felld sem gerir það að verkum að við getum ekki stutt málið. Málið fer þá hér í gegnum þingið, sýnist mér, án atkvæða okkar framsóknarmanna.