138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

skattlagning afskrifta.

[17:16]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að við munum fá tækifæri til að ræða þetta og fara nákvæmlega yfir það þegar ríkisstjórnin hefur skoðað þær leiðir sem hún vill fara í þessu efni. Ég fullyrði þó við hv. þingmann að auðvitað erum við að fara leiðir sem gagnast einstaklingum sem þurfa á afskriftum að halda. Ég er alveg sammála hv. þingmanni að þegar afskrifað er hjá þeim sem geta ekki staðið undir skuldbindingum sínum á ekki að skattleggja þessar afskriftir hjá þessum einstaklingum þegar um er að ræða einhverjar hóflegar afskriftir. (Gripið fram í.) Við gætum þurft að skoða það ef um er að ræða einhver hundruð milljóna í afskriftir hjá einstaklingum að fara ekki svo langt, en hóflegar afskriftir sem orsakast t.d. af því að verið er breyta gengisbundnum lánum yfir í verðtryggð lán og afskrifa um leið einhvern hluta á ekki að skattleggja. Þá breytum við bara lögunum til þess að það verði gert.

Í skuldaaðlögunarfrumvarpinu sem ríkisstjórnin hefur kynnt er möguleiki að afskrifa að fullu (Forseti hringir.) hjá einstaklingum sem eru í þeim vanda að þeir geti ekki neitt greitt niður skuldir sínar þegar búið er að fara yfir allt sviðið hjá viðkomandi (Forseti hringir.) einstaklingi. (SDG: Hvað ætlarðu að gera svo?) Ég sagði að það ætti ekki að skattleggja þegar um (Forseti hringir.) hóflegar eignir eða afskriftir hjá einstaklingum væri að ræða.