138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

lánsfjárþörf ríkissjóðs.

[17:32]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Þetta hangir auðvitað allt saman, þ.e. fjárþörf ríkisins og það fé sem ríkið sækir sér til þeirra sem geta lánað — það eru þá kannski fyrst og fremst lífeyrissjóðirnir sem eru sjálfstæð uppspretta sparifjár — og síðan hvert aðgengi annarra er að því sama lánsfé, því að ekki geta lífeyrissjóðirnir notað sömu krónurnar til þess að fjármagna hallann á ríkissjóði og til þess að fjármagna framkvæmdir hjá orkufyrirtækjum eða öðrum fyrirtækjum eða stofnunum sem á því þurfa að halda.

Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson benti á að hugsanlega væri lánsfjárþörfin á næstu mánuðum ekki svo mikil vegna ríkissjóðs því að þau erlendu lán sérstaklega sem við höfum áhyggjur af koma ekki á gjalddaga fyrr en eftir rúmt ár. Það kann vel að vera rétt að það væri hagstæðara fyrir ríkissjóð að fresta þeirri lántöku um einhverja mánuði eða hugsanlega fram á fyrri hluta næsta árs frekar en að taka þau lán (Forseti hringir.) alveg á næstu mánuðum.