138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

viðbragðsáætlun og framkvæmd vegna eldgoss.

[17:33]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Eins og öllum er kunnugt hófst gos í Fimmvörðuhálsi aðfaranótt sunnudags og er hugur okkar allra hjá íbúum svæðisins og Sunnlendingum öllum. Þetta minnir okkur á hvað náttúruöflin eru sterk og hvað við erum smá í samanburði við þau. Það hefur verið sérstaklega ánægjulegt að fylgjast með viðbrögðum heimamanna, hvort sem það eru almannavarnayfirvöld, lögregla, björgunarsveitir, sjálfboðaliðar, Rauði krossinn, heilbrigðisstarfsmenn og allir þeir fjölmörgu sjálfboðaliðar sem komið hafa að þessu máli. Í ljósi umræðunnar sem var hérna áðan er mjög athyglisvert að sjá að þarna er viðbragðsáætlun sem unnið hefur verið eftir. Það er kannski eitthvað sem hæstv. forsætisráðherra mætti taka sér til fyrirmyndar, en það er önnur saga.

Það er engin tilviljun að þetta hefur gengið vel. Það hafa verið gerðar miklar skipulagsbreytingar í þessu kerfi á undanförnum árum. Þær breytingar sem gerðar hafa verið, allar æfingarnar og öll sú vinna sem unnin hefur verið skila sér núna í þessum fumlausu, öguðu og beinu, góðu viðbrögðum við þeirri vá sem þarna er. En óvissuástandi er ekki lokið og því vil ég spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvort hún geti gert grein fyrir stöðu mála, framvindu gossins í dag, og hvað stendur til í aðgerðum núna á næstu dögum.

Eins vil ég spyrja hæstv. ráðherra um þann mikla kostnað sem væntanlega hefur fallið til þarna, hvort gerðar hafi verið einhverjar ráðstafanir til að mæta þeim kostnaði og hvort hann hefur verið metinn á þessu stigi.