138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:57]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er með miklum ólíkindum hvernig LÍÚ hefur gengið fram í þessu máli. Og það er með ólíkindum að LÍÚ skuli slá á hverja einustu sáttarhönd sem að þeim hefur verið rétt. Ég hef sjálfur farið á fund þeirra og boðið þeim sátt sem er að mínu mati afar hagstæð fyrir þá. Nei, allt kemur fyrir ekki, prinsippin skulu standa. Ég harma afstöðu LÍÚ í þessu máli, ég tel hana óábyrga og ég skora á þá að endurskoða afstöðu sína í þessu. Að ætla sér að segja upp stöðugleikasáttmálanum á grundvelli nokkurra hundruða tonna í skötusel er óábyrgt. (Gripið fram í.) Og ég tek líka fram að í frumvarpinu er mælt fyrir um atvinnuskapandi þætti, eins og línuívilnun o.fl. sem skapar aukna atvinnu og auknar veiðar á landinu á þessu fiskveiðiári

Ég tek líka fram að í þessu frumvarpi er brýnt ákvæðið um skiptingu gullkarfa/djúpkarfa sem útgerðarmenn kalla eftir. Ég harma afstöðu LÍÚ gagnvart skötuselsákvæðinu (Forseti hringir.) og ég harma það líka að þeir skuli hafa slegið jafnþétt og þeir hafa gert á útrétta sáttarhönd í þessu máli sem enn er þó haldið (Forseti hringir.) fram réttri. Ég minni á að þetta er heimildarákvæði sem er ekki búið að taka ákvörðun um hvernig verður nýtt. (Forseti hringir.) Þó verður hún nýtt varlega og í fullu samráði við Hafró. (Gripið fram í.)