138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:01]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þetta er algjört prinsippmál. Þetta mál snýst ekki um LÍÚ ef menn halda það virkilega. Þetta snýst um þær leikreglur sem við erum að reyna að búa sjávarútveginum til lengri tíma litið.

Það er alveg ljóst eftir atburði dagsins að Samtök atvinnulífsins líta svo á að skötuselsfrumvarpið, sem væntanlega verður samþykkt, sé yfirlýsing og aðgerð um að hafa stöðugleikasáttmálann að engu. Hæstv. forsætisráðherra svaraði því áðan í óundirbúnum fyrirspurnum að Samtök atvinnulífsins væru bara einn aðilinn að málinu og talaði niður til þeirra, köld skilaboð, köld gusa fyrir Samtök atvinnulífsins varðandi það og þann vilja sem við verðum að sjá af hálfu ríkisstjórnar, viljann til að halda stöðugleikasáttmálanum í gildi. Það er alveg ljóst að ef stöðugleikasáttmálanum verður sagt upp í dag er það á ábyrgð Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og á ábyrgð hæstv. sjávarútvegsráðherra Jóns Bjarnasonar sem hafa slegið endalaust á útrétta sáttarhönd (Forseti hringir.) hluta stjórnarandstöðu sem og hagsmunasamtaka í sjávarútvegi.