138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:13]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er gríðarlegur ágreiningur um þetta mál. Það er átakamál og ekki bara Samtök atvinnulífsins eru á móti þessu heldur einnig ASÍ. Það er heldur ekki þannig að LÍÚ séu einu hagsmunaaðilarnir í sjávarútvegi á móti málinu, flestallir hagsmunaaðilar í sjávarútvegi gjalda varhuga við því. Val ríkisstjórnarinnar er að fara með það í þennan átakafarveg algjörlega að þarflausu. Málið er í sáttafarvegi og þannig ætti það að vera.

Sjávarauðlindin á að vera og er í eigu þjóðarinnar. Er eitthvað í þessu frumvarpi sem tryggir það frekar? Nei.

Sjávarauðlindin á að skila sem mestum arði til þjóðarinnar. Er eitthvað í þessu frumvarpi sem tryggir það? Nei.

Við ættum að hafa ýtt þessu til hliðar. Stöðugleikasáttmálinn er í uppnámi við að keyra þetta mál í gegn í þessum gríðarlega ágreiningi og átökum. Við ættum líka að ýta þessu máli til hliðar. Því miður var ekki orðið við því við 2. umr. en ég hélt smástund í dag að ríkisstjórnin (Forseti hringir.) væri að vitkast og ætlaði að draga málið til baka. Sáttanefndin er að störfum og ég held að hún ætti að fá að ljúka störfum (Forseti hringir.) áður en svona mál eru keyrð í gegnum þingið.