138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:24]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram í orðum hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar gerir minni hlutinn tillögu til að snúa þessu máli til fyrra horfs þannig að þeir fjármunir sem þó verða til í sjávarbyggðum landsins renni aftur til byggðaáætlunar á þeim svæðum. Það kemur mér satt best að segja nokkuð á óvart að þingmenn Vinstri grænna skuli þá ekki taka þátt í því þar sem þeir hafa verið miklir talsmenn byggðaáætlana og stuðnings við byggðir landsins, alla vega í kringum kosningar. Ég hefði haldið að hér gætu þeir gripið til þess að greiða atkvæði og setja grænt á þetta. Annað eins hafa þeir látið yfir sig ganga og annar eins ágreiningur er innan ríkisstjórnarinnar að þeir gætu þannig greitt atkvæði með okkur í minni hlutanum til stuðnings byggðum landsins. (Gripið fram í: Hvar er byggðastefnan?)