138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:31]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Úr því að ríkisstjórnin ákvað að fara þá leið varðandi hina svokölluðu frístundaveiðibáta sem kveðið er á um í þessu frumvarpi er nauðsynlegt að verðleggja aflaheimildir með öðrum hætti en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Frístundaveiðibátarnir eru ekki atvinnubátar í þeim skilningi að þeir séu að hámarka aflaverðmæti sitt. Þeir fiska á grunnslóð og verðmæti þess fisks sem þeir koma með að landi er þannig að þeir geta alls ekki staðið undir því kvótaverði sem gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi. Þess vegna er mikilvægt að kveða á um að verð á aflaheimildum skuli ekki vera hærra en 75% af meðalverði í viðskiptum með aflamark sem birt er á vef Fiskistofu. Annars er tómt mál að tala um að þetta ákvæði sem frumvarpið gerir ráð fyrir af hálfu meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar nái tilgangi sínum.

Ég trúi því ekki að meiri hluti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og meiri hluti Alþingis ætli að bregða fæti fyrir uppbyggingu þessarar atvinnugreinar með því að hafa það fyrirkomulag sem boðað er (Forseti hringir.) í breytingartillögum meiri hlutans.