138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:32]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það er margt ósamræmið í þessu frumvarpi, t.d. að við þessar margumtöluðu skötuselsveiðar verður búið að fastsetja markaðsvirði þeirra sem kaupa aflaheimildir í 120 kr. Það er sem sagt ekki á markaði, ekki hæsta markaðsverð heldur ákveðið verð. Aftur á móti skulu þeir sem eru með aflaheimildir í frístundaveiðum kaupa afla á hámarksmarkaðsverði þó að, eins og hefur verið sýnt fram á, þeir geti ekki skilað sambærilegum verðmætum og gæðum aflans í landi vegna þess að þetta er ferðaþjónusta. Frístundaveiðarnar eru fyrst og fremst ferðaþjónusta en ekki útgerð. Það er nauðsynlegt fyrir þá að hafa aðgang að aflaheimildum með einum eða öðrum hætti því þeir eru búnir að selja ferðirnar kannski eitt eða tvö ár fram í tímann. Það er merkilegt ef þetta á síðan að verða aukaskattur á þessa ferðaþjónustugrein.