138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:41]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér er öfugmælastjórnin að störfum. Í orði er talað um samvinnu og samráð, á borði er efnt til stríðs. Svo er bara sagt: Við erum alveg til í samvinnu og samráð, að því gefnu að menn geri nákvæmlega það sem við segjum. Þannig virkar þetta ekki, virðulegi forseti, og hér eru menn að breyta hlutum í grundvallaratriðum, eins og einn hv. stjórnarþingmaður lýsti svo ágætlega, án nokkurrar samvinnu og án nokkurs samráðs. Þetta snýst um fólk í sjávarbyggðunum og þetta snýst um fólk á Íslandi. Það skal enginn halda að fólk muni ekki finna fyrir því þegar farið er í svona vanhugsaðar breytingar. Það mun svo sannarlega gerast, m.a. í því að nú er búið að (Forseti hringir.) segja upp stöðugleikasáttmálanum. Það gerði ríkisstjórnin og það er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar.