138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:43]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera eitt ákvæði þessara laga að umtalsefni í þessari atkvæðaskýringu minni og það er í sambandi við karfaákvæðið svokallaða. Venjan hefur verið að þegar menn skipta út þessum heimildum miða menn við og notast við veiðireynslu undanfarinna þriggja ára. Núna þegar verið er að breyta karfa í gullkarfa og djúpkarfa er þetta ekki gert heldur er það gert innan svokallaðrar reglugerðar og það er tryggt að þeir sem eru með 12,5 tonn og minna fái þar leiðréttingu. Ég ítreka hins vegar að ég bind mjög miklar vonir við yfirlýsingar hv. þm. Atla Gíslasonar, sem er formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, að í þessari reglugerð felist það svigrúm sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þarf til að leiðrétta þær örfáu útgerðir sem verða fyrir skakkaföllum af þessu ákvæði. Ég treysti á að hv. þingmaður fylgi því eftir, því annars munum við úthluta veiðiheimildum (Forseti hringir.) til þeirra sem sannarlega geta ekki nýtt þær og það sem verra er, við setjum atvinnuöryggi byggðarlaga í hættu.