138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

notendastýrð persónuleg aðstoð við fólk með fötlun.

354. mál
[19:18]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Ég styð þessa tillögu heils hugar og fagna flutningi hennar og ég þakka sérstaklega 1. flutningsmanni, hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni, fyrir frumkvæðið. Eins og hann benti á í ræðu sinni er um mikið mannréttindamál að ræða og mér finnst mikilvægt að við sameinumst um að það verði að veruleika og það sem allra fyrst.

Þegar rætt er um bætur á aðstöðu fólks með fötlun er oft rætt um kostnað. Vissulega kostar þjónusta af þessu tagi en ávinningurinn er miklu meiri en kostnaðurinn, ekki bara fyrir einstaklinga heldur fyrir samfélagið í heild því einstaklingur sem hefur verið óvirkur og ekki getað t.d. tekið þátt í atvinnulífinu og ekki getað greitt skatta til samfélagsins getur það mun frekar hljóti hann notendastýrða persónulega aðstoð. Ég trúi því að framlag allra sé mikilvægt og hver og einn hafi persónulega sýn og geti haft sitthvað til málanna að leggja. Ég held að samfélagið verði ríkara fyrir vikið, fjölbreyttara og ánægjulegra fyrir okkur öll.

Líðan þess sem fær þjónustuna hlýtur að verða miklu betri en við núverandi fyrirkomulag. Líðan og heilsa fer oft saman og því má ætla að líklegra sé að heilsa notandans verði betri. Væri mjög áhugavert að sjá hvort einhverjar rannsóknir eða tölur um það séu til hjá nágrannaríkjum okkar sem hafa þegar fetað þessa leið. Ég er eiginlega viss um að þó að þessi leið kosti töluvert þá er sparnaðurinn á öðrum sviðum, t.d. innan heilbrigðiskerfisins í heild, meiri en kostnaðurinn. Ég legg til að við sameinumst um full mannréttindi allra þegna samfélagsins því það er til hagsbóta fyrir okkur öll.