138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

stjórnarskipunarlög.

469. mál
[19:21]
Horfa

Flm. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum. Málið er flutt af liðlega 20 þingmönnum úr fjórum flokkum og hreyfingum og hefur vinna við það staðið undanfarna mánuði. Markmiðið með að mæla fyrir því og koma því til nefndar núna strax, sem yrði þá sérnefnd um stjórnarskipunarmál um þetta tiltekna atriði eins og vinnubrögðin eru, var að þetta kæmi fram strax í upphafi eða við fyrri hluta kjörtímabils þannig að nefndinni gæfist dágóður tími til að fara í gegnum málið, ekki síst ef svo fer sem vonandi horfir að haldið verði sérstakt stjórnlagaþing þar sem þessi mál verða auðvitað ofarlega á baugi. Væri spennandi að sjá hvað kæmi út úr slíku þingi og ekki ólíklegt að þar yrðu ofan á viðhorf um að landið yrði gert að einu kjördæmi. Yrði það mikill byr í seglin fyrir þetta mál og mikilvægt innlegg í þá umræðu alla um hvernig við skulum haga þessum málum í framtíðinni.

1. gr. frumvarpsins er svohljóðandi:

„31. gr. stjórnarskrárinnar orðast svo:

Á Alþingi eiga sæti 63 þjóðkjörnir þingmenn, kosnir leynilegri hlutbundinni kosningu til fjögurra ára.

Landið er eitt kjördæmi.

Í lögum um kosningar til Alþingis skal kveðið á um úthlutun þingsæta og þess gætt að hver samtök fái þingmannatölu í samræmi við heildaratkvæðatölu sína. Þau stjórnmálasamtök koma þó ein til álita við úthlutun þingsæta sem hlotið hafa minnst þrjú af hundraði af gildum atkvæðum á landinu öllu.“

Viðhorfin til þess hvað svona þröskuldar eiga að vera háir eða lágir eru auðvitað nokkur og nokkuð mörg. Við ákváðum að sammælast um það í frumvarpinu og svo mun nefndin að sjálfsögðu fjalla ítarlega um það hvort hann má vera hærri eða lægri en 3%.

Um árabil hefur mikið verið rætt um mörk kjördæma á Íslandi og vægi atkvæða. Breytingin fyrir um áratug síðan sem fyrst var kosið eftir, árið 2003, var vissulega skref í rétta átt þar sem kjördæmin voru stækkuð og atkvæðavægið jafnað umtalsvert frá því sem áður var þegar mesta ósamræmið var þegar tekið var tillit til vægis atkvæðanna á Vestfjörðum og hins vegar í gamla Reykjaneskjördæminu þar sem það var 6:1. Auðvitað hefur þetta allt haft sínar ástæður og það er partur af stjórnmálasögu okkar að hér fór af stað gríðarlega mikið ójafnvægi og misvægi atkvæða þannig að flokkur gat fengið hreinan meiri hluta með hugsanlega liðlega þriðjungi atkvæða á bak við sig eftir því hvernig atkvæði féllu í kjördæmunum þar sem svæði var hvað grófast og lengst á milli. En viðhorf flutningsmanna er að nú sé komið að því að gera landið á einu kjördæmi og jafna þar með atkvæðaréttinn til fulls. Það kallar á breytingar í stjórnarskrá og vandlega vinnu í þinginu og utan þess og því þarf að vanda til verka eins og ég nefndi áðan.

Fyrst var flutt frumvarp um að landið yrði gert að einu kjördæmi árið 1927 af Héðni Valdimarssyni. Síðan fóru að berast upplýsingar um að Jón Baldvinsson hefði flutt slíkt mál árið 1933 og síðan flutti Guðmundur Árni Stefánsson mál sama efnis fyrir sjö árum.

Kostir og gallar einstakra atkvæða við kosningar og skipan mála eru að sjálfsögðu öllum nokkuð kunnir enda umræðan um kjördæmamálið staðið linnulítið áratugum saman. Í skýrslu nefndar forsætisráðherra um breytingar á kjördæmaskipun og tilhögun kosninga frá 1998 er farið ágætlega yfir kosti og galla ýmissa valkosta sem hafa verið nefndir til sögunnar. Við höfum búið við einmenningskjördæmi á árum áður sem var síðan breytt yfir í kjördæmi sem við þekkjum og síðan yfir í þessi sex sem við erum með núna og er í skýrslunni bent á kosti og galla. Kostirnir eru auðvitað helstir og augljósastir þeir að fullkominn jöfnuður næst á milli kjósenda og misvægi atkvæða er ekki lengur til staðar. Stjórnmálaflokkar fá þann þingmannafjölda sem atkvæði þeim greidd segja til um og þingmenn hafa heildarhagsmuni í ríkari mæli að leiðarljósi í störfum sínum en ekki þrengri kjördæmasjónarmið. Ég held að það eitt og sér væri talsvert mikill ávinningur og kosningakerfið væri mjög einfalt og auðskilið.

Umfram allt og það sem mér hefur persónulega alltaf þótt skipta mestu máli, hef ég árum saman haft þá skoðun að öll atkvæði væru jöfn og landið eitt kjördæmi, er að það er mannréttindamál að öll atkvæði kosningabærra Íslendinga vegi jafnþungt. Þess vegna tel ég að stigið væri mjög stórt skref í mannréttindamálum á Íslandi ef landið væri gert að einu kjördæmi og atkvæðin jöfnuð alveg. Mér finnst engin rök lengur haldbær fyrir því að hafa ójafnt atkvæðavægi í kosningum til að bæta fólki stöðu eftir búsetu. Þó að ég hafi mikla samúð með sjónarmiðum landsbyggðarinnar, sé landsbyggðarmaður og fylgist mikið með málefnum hennar og vilji mikið vinna til að bæta stöðu þeirra byggða sem veikar standa og fjærst iðunni á suðvesturhorninu, þá eru aðrar leiðir en kosningakerfið að mínu mati miklu eðlilegri til að bæta stöðu einstakra byggða til búsetu, taka því langt fram. Það má vel vera að færa hefði mátt fyrir þessu rök fyrir áratugum síðan, mörgum áratugum, þegar samgöngur og fjarskipti voru eins og voru á Íslandi fyrir miðja öldina og fyrstu áratugina, en það heyrir að mínu mati sögunni til fyrir löngu síðan. Ég tel að jafnræði eigi þarna við fullkomlega, að það sé mannréttindamál hvernig atkvæðisréttinum er fyrir komið og þess vegna eigi öll atkvæði að vigta jafnþungt. Um leið væri hægt að útfæra og fara yfir stöðuna í byggðamálum telji menn að það muni með einhverjum hætti halla á byggðirnar. En auðvitað er ekki hægt að fullyrða fyrir fram um það hvernig því yrði fyrir komið hvaðan þessir 63 þingmenn væru, hvernig þeir mundu spegla Ísland allt o.s.frv. eftir tilteknar kosningar af því að það yrði alltaf lagt að flokkunum að stilla sínum listum þannig upp að þeir spegli landið allt og búsetu í landinu og auðvitað væri það óskynsamlegt hjá nokkrum flokki að stilla upp lista sínum þannig að hann speglaði bara þéttbýlið og suðvesturhornið.

Flokksræðið gæti vissulega aukist, auðvitað getur þetta orðið til þess að áhrif dreifbýlisins minnki að einhverju leyti. Við því verður einfaldlega að sporna á einhvern hátt. Flutningsmenn benda hins vegar á að vilji stjórnmálaflokkar sækja kjörfylgi vítt og breitt um landið leggja þeir framboðslista sína vitaskuld fram á þann veg að þar verði góð breidd fulltrúa þéttbýlis og dreifbýlis, alveg eins og allir stjórnmálaflokkar í dag finna sér einhverja leið, ef þess þarf, að spegla a.m.k. með viðunandi hætti stöðu kynjanna á framboðslistum sínum og auðvitað reyna stjórnmálaflokkar að spegla aldur og búsetu eins og kostur er líka.

Til að tryggja virkt lýðræði við val fulltrúa flokkanna á framboðslistum kemur einnig til álita að í kosningalög yrðu fest ákvæði í þá veru. Má þar nefna það sem núna er til skoðunar í allsherjarnefnd, frumvarp til laga um persónukjör. Prófkjör flokkanna hafa viðgengist í nokkra áratugi og hafa að mörgu leyti runnið sitt skeið. En það er samt ekki leiðin að hörfa aftur yfir í hreinar uppstillingar í öllum flokkunum og ég held að það væri mikill ósigur fyrir lýðræðið ef menn mundu gera það. Það er miklu frekar að binda stíft þak á kostnað og auglýsingar og slíkt. En best af öllu væri að færa sig yfir í persónukjör um leið þannig að kjósendur mundu velja þess vegna þvert á lista, eins og er mín skoðun, framboðslista með þeim hætti. Í þessu frumvarpi er ekki tekin afstaða til þess enda er það annað mál og ekki sérstaklega hyggilegt að blanda því saman og mjög fjölbreyttar skoðanir eru innan og milli flokka um hvernig og hversu aukið persónuval eigi að viðhafa. Það er örugglega eitthvað sem stjórnlagaþingið mun fjalla ítarlega um líka. Ég held reyndar að það sé gífurlega mikilvægt að okkur auðnist að klára málið sem er núna í allsherjarnefnd, um stjórnlagaþingið, og koma því til framkvæmda þannig að kosið verði til þess núna á næstu mánuðum og það þing fari fram og leggi línurnar um það hvernig við eigum að breyta stjórnarskránni, bæta lýðræðið, stjórnarskrá og annað.

Ljóst er að stuðningur við tillöguna um að landið verði eitt kjördæmi hefur aukist umtalsvert hin síðari ár. Það má heyra innan úr öllum stjórnmálaflokkunum, sem betur fer, enda eiga viðhorf til þess hvernig við komum þessum málum fyrir alls ekki að vera bundin á flokksklafa enda leyfa þingmenn sér það svo sannarlega, eins og kemur fram í flutningi á þessu máli, að taka þátt í slíkum málflutningi þó það sé ekki formleg stefna þeirra flokka.

Með því að gera landið að einu kjördæmi næst fullkominn jöfnuður milli kjósenda þannig að misvægi atkvæða og um leið mannréttinda er ekki lengur til staðar. Að sama skapi fengju stjórnmálaflokkar þann þingmannafjölda sem atkvæði þeim greidd segja til um og það skiptir náttúrlega mjög miklu máli. En eins og ég segi, það á að sjálfsögðu að velta því fyrir sér hvað kostirnir eru augljósir og ágallarnir eru að sjálfsögðu til staðar en það má bregðast við þeim með öðrum hætti, t.d. hvað varðar útfærsluna og hvernig við veljum á framboðslistana. Flokkarnir þurfa náttúrlega að sýna skynsemi og hyggindi í því líka hvernig þeir haga málum sínum hvað varðar búsetuna o.fl. Allt þetta er hægt að skoða í vinnu og sérnefndinni um málið. Það skiptir mjög miklu.

Ég fagna því mjög að þetta mál komi strax til umræðu, það er ekki nema rúm vika síðan við lögðum það fram, þannig að hægt sé að kjósa sérnefndina strax og þar með að byrja að vinna í málum hvort sem það tekur 12 mánuði eða 18 eða aðeins fleiri eða færri, alla vega að því sé gefinn nægilegur tími í nefndinni. Hér verður að vanda mjög til verka af því að ég held og ég spái því, sérstaklega eftir stjórnlagaþingið, að við munum afgreiða málið úr nefndinni með jákvæðum hætti þannig að fjallað verði aftur um það eftir næstu þingkosningar og hugsanlega, ef Alþingi kemst þá að sömu niðurstöðu að landinu verði breytt í eitt kjördæmi, eigum við þá bara eftir að kjósa einu sinni í viðbót út frá þeirri kjördæmaskipan sem við þekkjum núna með kjördæmunum sex. En alltént er stigið stórt skref í að hefja þessa vinnu og megi hún verða sem vönduðust og best í nefndinni.