138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

stjórnarskipunarlög.

469. mál
[19:32]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna þessari tillögu og ekki síst því að hér sé viðhaldið um 90 ára gamalli hefð að leggja tillögu af þessu tagi fram í þinginu. Það er fagnaðarefni að hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson skuli viðhalda þessari hefð. Ég er alls ekki neikvæður gagnvart þessu og mæti þessu með opnum huga en hef hins vegar ekki gert upp hug minn í þessu máli.

Mig langar að eiga orðastað við 1. flutningsmann um þetta. Ég er t.d. mikill áhugamaður um persónukjör og vildi gjarnan sjá að kjósendur hefðu miklu ríkara val þegar þeir velja fólk á þing en standi ekki bara frammi fyrir þeim kosti að velja einn flokk. Mér finnst að fólk eigi að fá að velja þvert á flokka, ég er áhugamaður um það. Hv. þingmaður tæpti aðeins á þessu í ágætu framsöguerindi sínu. Mig langar að heyra betur hvernig hann sér fyrir sér samspil þess að landið verði eitt kjördæmi og að það verði tekið upp persónukjör í ríkara mæli. Sér hann fyrir sér að fólk fái þá að velja þvert á flokka? Ég spyr vegna þess að hv. þingmanni varð tíðrætt um að flokkarnir mundu stilla upp listunum og hann lagði talsverða áherslu á að í þeirri uppstillingu yrði landshlutasjónarmiða gætt en ég veit ekki hvernig það rímar við persónukjörshugmyndir.

Eins langar mig að spyrja hv. þingmann, af því að ég er líka mikill áhugamaður um stjórnlagaþing og tel mjög brýnt að blásið verði til þess: Er þetta ekki dæmigert mál sem stjórnlagaþing ætti að fjalla um og það mundi þá gera tillögu um landið sem eitt kjördæmi ef því (Forseti hringir.) sýndist svo?