138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

stjórnarskipunarlög.

469. mál
[19:37]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka svarið. Ég er með frekari spurningar. Ég sagði að ég sjálfur hefði ekki endanlega gert upp hug minn til þessarar tillögu þó að ég sé jákvæður og mæti henni með opnum huga. Ég hef lengi haft áhuga á þessu. Eitt togast á í mér og það er að það er líka markmið fulltrúalýðræðisins, og þess vegna heitir þetta fulltrúalýðræði, að sem flestir þjóðfélagshópar hafi fulltrúa á þingi. Þá er það þessi kjördæmahugmynd að fulltrúar landshlutanna eigi fulltrúa á þingi og það sé tryggt. Þeir sem hafa mælt fyrir hugmynd sem er alveg þveröfug við landið sem eitt kjördæmi, sem sagt einmenningskjördæmum, hafa þessi sjónarmið mjög rík í huga. Með einmenningskjördæmum væri komið mjög til móts við að sem flestir Íslendingar ættu gulltryggðan fulltrúa á þingi. Þetta eru vangaveltur frá mér í pontu og mig langar að fá viðbrögð hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar við þessum sjónarmiðum. Hvernig sér hann fyrir sér að þessari kröfu fulltrúalýðræðisins verði mætt þegar landið er eitt kjördæmi? Hann minntist á að það væri hægt að tryggja markmið fulltrúalýðræðisins með öðrum leiðum og það væri gaman að heyra hvað hann hefur í huga í þeim efnum.

Eins varðandi einn anga af þessu máli: Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér kosningabaráttu (Forseti hringir.) þegar landið er eitt kjördæmi? Það er ríkur þáttur í því að stunda stjórnmál að vera í góðum tengslum við kjósendur sína. Minnka þau ekki ef landið er eitt kjördæmi?