138. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2010.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Eins og oft áður eru undir þessum lið rædd mörg athyglisverð umræðuefni. Ég vil byrja á að taka undir þakkir hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar til almannavarnafólks á Suðurlandi sem hefur staðið sig afar vel í þeim aðstæðum sem það glímir við núna varðandi eldhræringar á Suðurlandi.

Hins vegar get ég ekki tekið undir boðskap hv. þm. Róberts Marshalls sem fór mikinn í brýningu til Samtaka atvinnulífsins og sagði LÍÚ standa í baráttu í varðstöðu um kerfi sem ósætti væri um. Þá segi ég: Kerfi sem ég hélt að væri samkomulag um að setja í nefnd til endurskoðunar. Það er nákvæmlega það sem þetta snýst um, ekki eins og hann vildi vera láta, nokkur hundruð kíló af skötusel. (Gripið fram í: Var það LÍÚ …?)

Ég vil líka brýna hv. þm. Sigmund Erni Rúnarsson sem kemur hér aftur og aftur og talar um atvinnumálin. Ég er honum sammála. Ég vil brýna hann til að taka þá umræðu við þá sem sitja við ríkisstjórnarborðið og samflokksmenn sína og hinn stjórnarflokkinn. Ég bið hann að leggja okkur Suðurnesjamönnum lið vegna þess að í þriðja sinn á örfáum vikum rísa upp á afturlappirnar afturhaldsöfl innan þessara stjórnmálaflokka og ætla sér að koma í veg fyrir brýna og þarfa atvinnuuppbyggingu á svæði sem glímir við mikið atvinnuleysi. Við sjáum hér tækifæri; einkaspítali, það mátti ekki af því að það var orðið einka-, þá er það skotið niður; virkjanir, það má ekki virkja eða nýta orkuna nema til einhverra verkefna sem þessu fólki eru þóknanleg og núna kemur fyrirtæki sem væri sannarlega hægt að skilgreina sem nýsköpunarfyrirtæki sem þykir fínt orð í þessum herbúðum, kemur með flugvélar sem á að halda við og reka og sinna tækniþjónustu við, (Forseti hringir.) en, nei, þá er talað um her, hernaðarfyrirtæki og þar að auki einkaher sem hlýtur að vera það ógeðslegasta sem þetta fólk getur hugsað sér. En ég segi: (Forseti hringir.) Þetta er nýsköpunarfyrirtæki sem skapar atvinnulausu fólki á Íslandi atvinnu. Um það skulum við sameinast (Forseti hringir.) að lagfæra, ekki að standa vörð (Forseti hringir.) um einhverja kreddufulla hugmyndafræði.