138. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2010.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því þegar ég kem hérna upp að taka undir hrós til heimamanna í Rangárþingi og sýslumannsins þar fyrir það hvernig þeir hafa staðið að því að sinna almannavörnum í því eldgosi sem nú stendur yfir. Það sýnir hvað fyrirhyggjan og samvinna allra skiptir gríðarlega miklu máli. Það sýnir líka fram á að það er hægt að treysta heimamönnum fyllilega af því að þeir vita gjarnan best hvernig hlutirnir eru.

Það er ekki hægt að segja það sama um ríkisstjórnina, að hún sýni samvinnu eða fyrirhyggju. Hún réðst í gegnum þingið í gær í sambandi við skötuselinn. Algjörlega á eigin ábyrgð og vitandi vits setur hún hann á spil. Það er margbúið að segja að stöðugleikasáttmálinn sé í húfi ef þetta blessaða skötuselsmál fari í gegn. Hér hefur verið sagt að það skipti engu máli og það sé fyrst og fremst LÍÚ sem gangi fram með offorsi. Það er einfaldlega ekki rétt. ASÍ hefur gagnrýnt þetta harðlega svo og allir hagsmunaaðilar í sjávarútvegi. Þetta dæmist auðvitað bara beint á ábyrgð ríkisstjórnarinnar.

Það er fleira sem stöðugleikasáttmálinn átti að standa vörð um. Hann átti að standa vörð um frið á vinnumarkaði og hann átti að standa vörð um uppbyggingu í atvinnumálum. Tökum Suðurnesin sem dæmi, þar átti að vera Helguvíkurverkefni og það átti að ryðja öllum hindrunum úr vegi fyrir 1. nóvember. Þar er afar lítið að gerast. Gagnaver á Suðurnesjum er stopp. Menntastofnunin Keilir fær ekki fullkominn stuðning frá ríkisstjórninni. Nýting skurðstofu HSS, það var settur þvergirðingur fyrir það, það verkefni er stopp. Núna síðast er nýsköpunarverkefni sem kallað er ECA. og snýst um þotur, viðhald og uppbyggingu þeirra, fjöldann allan af störfum og nýfjárfestingu en þá segir ríkisstjórnin: (Forseti hringir.) Nei, við ætlum ekki heldur að gera neitt í því. Hvar er stöðugleikinn? Ekki einu sinni er þetta kyrrstöðusáttmáli, við erum að fara mjög hratt aftur á bak og atvinnuleysið vex.