138. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2010.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að gera athugasemd við að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hafi vænt hæstv. forsætisráðherra um ósannindi án þess að fá athugasemd frá forseta. Mér finnst ekki eðlilegt að þingmenn (Gripið fram í.) geti komið hér fram með órökstuddar fullyrðingar af þessu tagi án þess að við það séu gerðar athugasemdir.

Ég kem hér upp til þess að ræða undarleg viðbrögð Samtaka atvinnulífsins við því frumvarpi sem við samþykktum í gær sem fól m.a. í sér að gefnar verði út viðbótaraflaheimildir í skötusel. Í frumvarpinu eru mikilvæg ákvæði sem stuðla að aukinni atvinnu, sjósókn, aukinni línuívilnun, vinnsluskyldu uppsjávarafla, minni kvótatilfærslu, aukinni veiðiskyldu o.s.frv. Þetta eru allt þættir sem skipta verulegu máli til eflingar atvinnu og bættra lífsskilyrða í sjávarbyggðum landsins. Þetta láta Samtök atvinnulífsins eins og vind um eyru þjóta og ætla nú að segja upp stöðugleikasáttmálanum á grundvelli nokkur hundruð tonna í skötusel. (Gripið fram í: Kemur þér það á óvart?)

Hverjir eiga mestra hagsmuna að gæta af þeim stöðugleikasáttmála sem náðist ef ekki Samtök atvinnulífsins og aðrir aðilar þess? (Gripið fram í.) Ég vil nota tækifærið og lýsa líka undrun minni á viðbrögðum ASÍ við því frumvarpi sem við samþykktum hér í gær. Þessi viðbrögð eru óábyrg og út úr öllu korti og ég leyfi mér að nota þennan vettvang til að skora á Samtök atvinnulífsins að ganga fram af þeirri samfélagslegu ábyrgð sem allir aðrir aðilar þessa samfélags hafa gert á undanförnum mánuðum með það að markmiði að endurreisa hér efnahagslífið og koma stoðum undir lífskjör og lífsskilyrði almennings í þessu landi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)