138. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2010.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Mig langar að ræða mál sem var á dagskrá í gær, lagasetningu um bann við verkfalli flugvirkja. Þar upplifði ég, að mér finnst, eina ferðina enn óvandaða lagasetningu sem var keyrð í gegn á miklum hraða og á röngum forsendum. 2. gr. laganna framlengir kjarasamning flugvirkja með lögum, þeir eru sviptir verkfallsrétti fram í október 2010. Engu að síður héldu þingmenn hér fram við umræður um frumvarpið og eins fulltrúar í samgöngunefnd að deiluaðilar ættu að halda áfram samningaviðræðum og reyna að komast að nýju samkomulagi.

Lögin sjálf framlengja kjarasamninginn og það sem mér fannst skína í gegn í þessum umræðum í gær er að það vantar tilfinnanlega inn í þingið þekkingu á kjaramálum og kjaradeilum. Nú veit ég ekki hvernig stendur á því en samgöngunefnd, sem greinilega lagði sig fram í gær við að vanda vinnu sína við málið og nefndarmenn voru alls ekkert á því að haska því af, hafði einfaldlega ekki tíma til að kynna sér það. Það þurfti að afgreiða það með afbrigðum, það þurfti að afgreiða það með hraði. Það var engin þekking fyrir hendi á sögulegum aðgerðum varðandi lagasetningu á verkföll og þegar verkfallsréttur er afnuminn. Þess vegna gerðist það í þinginu í gær að í fyrsta skipti í kjaradeilusögu landsins var verkfallsréttur afnuminn án þess að brýnir öryggishagsmunir væru í húfi. Það hefur ekki verið gert áður í íslenskum kjaradeilum.

Hér voru peningalegir hagsmunir í húfi og ég leyfi mér að halda því fram að það hafi verið einfaldlega vegna þess að þingmenn hafa ekki nægar upplýsingar á milli handanna um með hvaða hætti lagasetningar á kjaradeilur hafa gengið hingað til. Það er brýnt í þessu máli (Forseti hringir.) eins og mjög mörgum öðrum að þingmenn hafi tíma til að kynna sér mál og þau séu ekki keyrð í gegnum þingið með afbrigðum eins og var gert í gær. Það var verið að svipta (Forseti hringir.) fólk verkfallsrétti og mannréttindum á ógnarhraða.