138. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2010.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að byrja að ræða um svokallað skötuselsfrumvarp sem var samþykkt hér í gær. Nú kemur hver hv. þingmaðurinn á fætur öðrum og segir að þetta hefði ekki átt að raska neinu, þetta séu nokkur hundruð tonn. Í frumvarpinu er talað um allt að 2.000 tonna heimild til ráðherra. Menn geta hártogast um að þeim hafi ekki verið kunnugt um það eða að hæstv. forsætisráðherra hafi ekki verið kunnugt um það en það var öllum fullljóst og öllum var kunnugt um það hverjar afleiðingarnar af þessu máli yrðu, þ.e. að stöðugleikasáttmálanum yrði sagt upp. Þess vegna benti ég við umræðuna í gær á að það hljóti þá að vera allir þessir litlu hagsmunir og þetta litla mál á báða bóga. Það er mjög sérkennilegt að menn skuli búa til fleiri vandamál en við þurfum á að halda því að nóg höfum við af þeim til að leysa.

Vegna spunans í kringum þessa LÍÚ-grýlu hjá mörgum hv. þingmönnum ítreka ég líka að öll aðildarfélög sjómanna og hagsmunaaðila í sjávarútvegi mótmæltu þessu ásamt ASÍ. Svo geta hv. þingmenn sagt að ASÍ sé bara ekki ábyrgt vegna þess að það fari ekki eftir persónulegum skoðunum einstakra þingmanna.

Þetta er ekki ábyrgt. Það er allt of mikið í húfi við þessar erfiðu aðstæður. Ég held í raun og veru að Samfylkingin hafi verið að búa sér til eitthvert spunamál út í þjóðfélagið til að það gleymi öllum málunum þar sem Samfylkingin er með buxurnar á hælunum. Þannig upplifi ég það.

Virðulegi forseti. Ég kem líka hér upp til að fagna og taka undir með hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni þar sem hann brýndi okkur þingmenn til að sýna samstöðu um að fara að skapa atvinnu í þessu landi. Ég tek heils hugar undir með honum og ég er farinn að halda, virðulegi forseti, og er reyndar ekki lengur í vafa um að það er meiri hluti fyrir því á Alþingi Íslendinga að bæta við aflaheimildir. Ég spurði hv. þm. Guðbjart Hannesson að því hér um daginn eftir að sú saga komst á kreik frá Vinstri grænum að Samfylkingin stæði í vegi fyrir því að bæta við aflaheimildir. Vilji hv. þm. Guðbjarts Hannessonar er til að gera það, hv. þm. Sigmundur Ernir brýnir þingið í að standa saman þannig að ég tel að það sé orðin samstaða um það (Forseti hringir.) á Alþingi. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ætti að taka mark á því fyrr en seinna.