138. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2010.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

21. mál
[14:08]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við höfum rætt þetta mál nokkrum sinnum á Alþingi og ég vil halda því til haga að hv. þáverandi þm. Kolbrún Halldórsdóttir flutti það fyrst. Hún varð síðar ráðherra og sú er hér stendur tók þá við keflinu.

Það gleður mig mjög mikið að finna þennan ferska andblæ sem ríkir á Alþingi núna. Upp á síðkastið höfum við tekið mjög mikilvæg skref sem margir jafnréttissinnar hafa barist fyrir. Ég nefni bann við kaupum á vændi, kynjakvótann í stjórnum fyrirtækja og núna þetta, að við fellum á brott heimildina sem var nýtt fyrir nektarsýningar. Það er mjög gott að við náum þessari samstöðu hér og það er sérstaklega mikið gleðiefni að sjá að þingheimur er meira og minna sammála núna, en þegar við afgreiddum kynjakvótann var einn stjórnmálaflokkur mjög ósáttur við það, því miður.

Við erum að fara fram af mikilli nærgætni, það er búið að ræða þetta oft, staðirnir vissu að þetta væri í vændum og þeim er líka gefinn kostur á nokkrum aðlögunartíma af því að þetta tekur ekki gildi fyrr en (Forseti hringir.) um mitt næsta sumar. Þetta er mjög gleðilegt og sýnir hvað Alþingi Íslendinga getur tekið vel á jafnréttismálunum þegar á reynir.