138. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2010.

stjórnarskipunarlög.

469. mál
[14:29]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Við höldum áfram umræðu um frumvarp til stjórnarskipunarlaga, um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Fyrsti flutningsmaður málsins er hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson. Þetta mál lýtur að mjög brýnum lýðræðisumbótum.

Í 1. gr. frumvarpsins segir að 31. gr. stjórnarskrárinnar skuli orðast svo, með leyfi forseta, svo við rifjum aðeins upp innganginn að þessu máli:

„Á Alþingi eiga sæti 63 þjóðkjörnir þingmenn, kosnir leynilegri hlutbundinni kosningu til fjögurra ára.

Landið er eitt kjördæmi.

Í lögum um kosningar til Alþingis skal kveðið á um úthlutun þingsæta og þess gætt að hver samtök fái þingmannatölu í samræmi við heildaratkvæðatölu sína. Þau stjórnmálasamtök koma þó ein til álita við úthlutun þingsæta sem hlotið hafa minnst þrjú af hundraði af gildum atkvæðum á landinu öllu.“

Hér er um að ræða, virðulegur forseti, einhverja mestu lýðræðisumbót sem um getur sem hægt er að hugsa sér að hrinda í framkvæmd, þ.e. þeirri sjálfsögðu lýðræðisumbót að jafna atkvæðisréttinn þannig að hver landsmaður hafi eitt atkvæði, hvorki meira né minna. Jöfnun atkvæðisréttar milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis hefur lengi verið deilumál. Eins og flutningsmaður kom inn á í gær þegar hann reifaði málið hefur þetta hlutfall færst frá því að vera á einhverju tímabili 1:6 í það að vera nú sem stendur u.þ.b. 1:2 þar sem landsbyggðarkjördæmin þrjú hafa u.þ.b. tvöfalt vægi miðað við þau kjördæmi sem eru á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. Reykjavík norður, Reykjavík suður og Suðvesturkjördæmi.

Þessi misréttur í atkvæðavægi gerir það að verkum að stór hluti landsmanna hefur í rauninni bara hálft atkvæði í alþingiskosningum og er að sjálfsögðu óásættanlegt. Hér er náttúrlega um sjónarmið að ræða sem voru barn síns tíma og eiga einfaldlega ekki við lengur og alls ekki við í landi sem vill kalla sig lýðræðisríki. Það er svo aftur annað mál og fyllilega réttmætt hvernig beri að tryggja hagsmuni landsbyggðarinnar í framhaldi af því að atkvæðisréttur er jafnaður því að núna búum við við þá stöðu að um helmingur alþingismanna er úr þessum þremur svokölluðu landsbyggðarkjördæmum og vissulega mun vægi landsbyggðasjónarmiða á Alþingi minnka við slíkar umbætur.

Ég leyfi mér að varpa fram þeim mikilvægu spurningum: Hvernig eru hagsmunir landsbyggðarinnar svo miklu öðruvísi en hagsmunir höfuðborgarsvæðisins? Búum við ekki öll í einu landi? Ég held að þessi mismunur hafi einfaldlega verið ofgerður undanfarin ár og áratugi þó að landsbyggðin standi vissulega höllum fæti í fjölmörgum málum. Ísland er undir öllum venjulegum skilgreiningum félagsfræðinnar og landfræðinnar skilgreint sem borgríki. Þau einu tvö lönd í heiminum sem eru með stærra hlutfall íbúa sinna á einum ákveðnum punkti landsvæðis eru Hong Kong og Singapúr. Ísland er í þriðja sæti hvað varðar þéttbýlismyndun á einum stað.

Þetta er eitthvað sem við þurfum einfaldlega að viðurkenna og fara að vinna út frá því, þó með það í huga að tryggja áfram hagsmuni landsbyggðarinnar sem sannarlega fara ekki saman við hagsmuni höfuðborgarsvæðisins. Við þurfum að tryggja þá hagsmuni með öðrum hætti en lýðræðisskekkju. Það er spurning hvernig það er gert en ég leyfi mér að benda á að í mörgum tilvikum, eins og t.d. við yfirfærslu þjónustuverkefna til sveitarfélaga, hefur þurft að loka fjölmörgum skólum hingað og þangað um landið. Í mörgum minni sveitarfélögum eru skólarnir sjálfir kannski kjarni þess samfélags sem þar er. Það er náttúrlega mjög vont mál fyrir öll samfélög þegar kjarna þeirra er einfaldlega lokað og læst og fyrirbærið flutt annað. Minni þjónusta á landsbyggðinni í fjölmörgum málum er að sjálfsögðu mjög slæm. Hér er ekki bara um skóla að ræða heldur t.d. vegasamgöngur, netsamgöngur, símasamband og fjölmargt fleira sem hingað til, eða þar til fyrir nokkrum árum að einkavæðingarbylgjan gekk yfir, landið var alltaf undir. Allt landið var rafvætt á sínum tíma. Það var allt landið símavætt á sínum tíma. Nú búum við hins vegar við þá stöðu að þeir staðir sem eru netvæddir eru fyrst og fremst helstu þéttbýlisstaðir því þar er það arðsemiskrafan sem ræður. Við megum ekki láta þá skekkju halda áfram eða versna við það að gera landið að einu kjördæmi. Jafnframt því að fagna þessu frumvarpi mjög, sem ég tel að hafi í sjálfu sér algjört gildi sem slíkt, tel ég sjálfsagt að samhliða því verði þeim atriðum velt upp þar sem, eins og ég sagði áðan, sannarlega landsbyggðarhagsmunir fara að einhverjum hluta ekki saman við höfuðborgarsvæðið.

Höfuðborgarsvæðið milli Hvítár í Borgarfirði og Hvítár í Ölfusi er orðið eitt atvinnusvæði. Það þarf að vinna þar að skipulagsmálum með það í huga og sinna þeim svæðum, ef til vill á annan hátt, sem eru utan þess. Í sóknaráætlun 20/20, sem er í allsherjarnefnd, er þetta svæði sérstaklega skilgreint.

Hvað svo sem því líður er jöfnun atkvæðisréttar, eins og ég sagði áðan, brýnasta lýðræðismálið og sú skekkja sem hefur verið í atkvæðavægi þarf að líða undir lok. Atkvæðisréttur manna má einfaldlega ekki breytast við það að flytjast á milli landshluta. Sú kæra sem barst inn á þing að loknum síðustu kosningum frá fjölskyldu sem hafði flutt af landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðið og hverrar atkvæðisréttur helmingaðist við flutninginn er náttúrlega í rauninni fáránleg. Þetta frumvarp lagar það.

Mig langar að ljúka máli mínu, frú forseti, á því að þakka fyrir framlagningu þessa frumvarps og fagna því að á því eru flutningsmenn úr öllum flokkum. Það eru fjölmargir meðflutningsmenn að frumvarpinu og brýnt er að það fari hratt og vel í gegn.

Ég vil að endingu ljúka máli mínu á því að vitna í lokaorð greinargerðarinnar þar sem segir einfaldlega, með leyfi forseta:

„Engin haldbær rök eru fyrir því að vægi atkvæða sé misjafnt eftir búsetu fólks. Aðrar leiðir en kosningakerfið eru miklu eðlilegri til þess að bæta stöðu einstakra byggða til búsetu í þeim.“